„Það verður að höfða til samvisku fólks í þessu“

Samkvæmt könnun er Fáskrúðsfjörður annar þeirra tveggja staða sem hefur með afgerandi hætti bætt aðbúnað barna í bílum síðastliðin tvö ár.



Þetta er meðal þess sem niðurstaða könnunar á öryggi barna í bílum við leikskóla sem Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá, VÍS og Samgöngustofa gerðu haustið 2015. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 30 ár en á árunum 1985 til 2011 voru árlega gerðar kannanir en eftir 2011 hafa þær verið gerðar annað hvert ár.

Samkvæmt fréttatilkynningu kemur fram að í dag séu aðeins 2% barna laus í bíl meðan sú tala var 80% árið 1985. Lagasetning um notkun öryggisbúnaðar fyrir börn og aukin notkun þess búnaðar í kjölfar fræðslu og kynninga sé stór áhrifavaldur í fækkun banaslysa meðal barna í bifreiðum.


Hverjum dettur í hug að leika sér með líf allra þessara ungu einstaklinga?

Dagbjört H. Kristinsdóttir hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir það alls ekki ásættanlegt að einhverjir skuli enn sleppa því að nota viðeigandi öryggisbúnað fyrir börn í bíl.

„Þó svo að þessi tala virðist lág, 2%, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að þar að baki erum um 45 einstaklingar. Ég skil bara ekki af hverju þessi tala er ekki núll, að einhverjum detti í hug að leika sér að lífi allra þessara ungu einstaklinga.“


Við þurfum að vera pínu dónaleg

Samkvæmt fréttatilkynningu var könnunin framkvæmd á þremur stöðum á Austurlandi árið 2015. Á Seyðisfirði voru 85% barna í viðeigandi öryggisbúnaði, 90% barna á Vopnafirði og yfir 95% barna á Fáskrúðsfirði, en árið 2013 voru undir 80% barna á staðnum í viðeigandi öryggisbúnaði.

Jóhanna Þorsteinsdóttir hjá Slysavarnarfélaginu Hafdísi á Fáskrúðsfirði er ein þeirra sem hefur komið að framkvæma fyrrgreindar kannanir undanfarin ár.

„Lang flestir standa sig mjög vel, en svo eru alltaf á því einhverjar undantekingar. Þegar við lendum á þessum slæmu tilfellum, eins og árið 2013, þá reyndum við hreinlega að höfða til samvisku þeirra einstaklinga, ræddum við þá maður á mann og reyndum að nota sálfræðina. Við þurfum að vera pínu dónaleg, það þýðir ekkert að fara einhverjum silkihöndum um svona mál, en svo virðist sem það hafi skilað sér,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir vaxandi umferðaröryggismenningu vera á Fáskrúðsfirði.

„Við hjá slysavarnarfélaginu höfum langt mikið upp úr því að fólk sjáist í umferðinni og við hreinlega bönkum upp á hjá fólki og gefum endurskinsmerki og seljum endurskinsvesti.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.