Sýni úr leghálsskimun finnst ekki í Danmörku

Jacqueline Guðgeirsson íbúi á Egilsstöðum segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið. Hún hefur beðið í tvo mánuði eftir niðurstöðum úr leghálsspeglun en sýni hennar virðist týnt í Danmörku.

Jacqueline birti reynslusögu sína á Facebook og hefur færsla hennar þar vakið mikla athygli. Nær 350 manns hafa deilt færslunni og tugir hafa skrifað á hana til stuðnings Jacqueline.

“Það er óbreytt staða hjá mér enda setti ég færsluna inn í gærdag,” segir Jacqueline í samtali við Austurfrétt. Hún gaf svo vefsíðunni leyfi til að segja sögu sína eins og hún birtist á Facebook.

“Ég er nú mjög sjaldan að pósta mynd af sjálfri mér,” segir hún. “En eins og á þessari mynd liður mér svona . Sumir af vinum mínum vita af því. Ég bíð og bíð eftir niðurstöðu frá þriðju sýnatöku úr leghálsspeglun.”.

Jacqeline segir síðan að fyrst hafi hún farið í reglulega krabbameinsskimun þann 1. október í fyrra. Sama dag var líka brjóstmyndataka. Hún hafi fljótlega fengið svar um að allt væri í lagi.

Síðan líða nokkrar vikur og eftir miðjan nóvember fær hún tölvupóst um að sýnið hafi ekki verið eðlilegt. Hún eigi að fara í aðra rannsókn sem fer fram þann 16. desember.

“Læknir og starfsfólk á Akureyri tóku mjög vel á móti mér. Ég var sjálfsagt smá kviðinn og í uppnámi. En ég róaðist strax eftir fyrstu mínúturnar,” segir Jacqueline.

Hún spyr síðan af forvitni hvenær væri hægt verði að fá svör. Henni er sagt að þetta taki nokkrar víkur og að sýnið verði sent til Danmerkur.

Svarið kemur síðan 22. febrúar og það er ekki gott, hún sé með HPV veiru.

“Þann 8. mars fór ég í næstu skoðun og sýnatöku hér á Egilsstöðum...beint til kvennsjúkdómalæknis,” segir hún.

“Í dag (10. maí) eyddi maðurinn minn sem er læknir tveimur og hálfum klukkutíma í simtöl til að fá einhverjar upplýsingar varðandi sýnatöku og niðurstöðu. Við vitum bara, að það var aftur sent til Danmörku en ekki hvert,” segir Jacqueline.

“Þetta er óþolandi ástand og þessi ákvörðun frá heilbrigðisráðherra er skref til fornaldar. Við islenskar konur eigum skilið betri þjónustu,” segir Jacqueline. “Krabbameinsfélagið hefur gert svo mikið fyrir betri forvarnir og ríkisstjórn er að eyðileggja allt. Ég er reið og kvíðinn og ráðlaus.”

Hvað tilvísun í heilbrigðisráðherra varðar er þar átt við nýlegar breytingar á  fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini sem gerðar voru í síðasta mánuði og hafa töluvert verið í fréttum síðan.

Mynd: Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.