Sveitarstjóraskipti hafa ekki áhrif á Finnafjörð

Umskipti á sveitarstjórum á Vopnafirði og Langanesbyggð hafa ekki áhrif á vinnu við undirbúning stórskipahafnar í Finnafirði.

Þetta segir Holger Bruns, talsmaður Bremenports, í svari við fyrirspurnum Austurfréttar. Rúmar tvær vikur eru síðan Þór Steinarsson lét af störfum hjá Vopnafirði og fyrir helgina var tilkynnt að Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, hefði verið ráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar.

Holger bendir á að Finnafjarðarverkefnið byggi á samningi milli sveitarfélaganna tveggja, verkfræðistofunnar Eflu og Bremenports. „Breytingar á sveitarstjórnum hefur ekki áhrif á samninginn.“

Hræringar hafa verið á fleiri sviðum í stjórnmálunum í kringum Finnafjarðarverkefnið en á Íslandi. Skömmu eftir að samstarfssamningur um verkið var undirritaður í apríl í fyrra var kosið í fylkisstjórnina í Bremen.

Þar missti Jafnaðarmannaflokkurinn, sem haft hefur meirihluta frá lokum seinni heimsstyrjaldar, meirihluta sinn. Í kjölfarið lét Martin Günther, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd fylkisins, af embætti sem ráðherra hafnarmála.

En Jafnaðarmannaflokkurinn er enn í meirihluta, að þessu sinni með Græningjum við við af Günther tók samflokkskona hans dr. Claudia Schilling. Holger segir að þær breytingar hafi engin áhrif á framgang Finnafjarðarverkefnisins, frekar en sveitarstjóraskiptin.

Í lok síðasta árs var lokið við að stofna tvö félög til að vinna að undirbúningi mögulegrar stórskipahafnar í firðinum. Holger segir að þessa stundina sé unnið að margvíslegum undirbúningi og samningum, bæði um tæknilega útfærslu hafnarinnar, sem og viðskiptahlið hennar auk viðræðna við landeigendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.