Strandveiðar á Austfjörðum tryggðar út ágúst

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um auknar heimildir til strandveiða. Alls verður 1.171 tonnum af þorski bætt við en um er að ræða óráðstafað magn sem kom til á skiptimarkaði í skiptum fyrir makríl og fleiri tegundir. Með þessu ætti að vera tryggt að strandveiðimenn á Austfjörðum geti stundað veiðar sínar út ágústmánuð.

Í tilkynningu segir að með þessari aukningu verður því heildarmagn í þorski á strandveiðum alls 11.171 tonn og samtals 12.271 tonn af óslægðum botnfiski.

Eins og fram hefur komið hér á síðunni skoraði heimastjórn Borgarfjarðar eystri nýlega á sjávarútvegsráðherra að leita allra leiða til þess að ekki komi til stöðvunar strandveiða. Finna þarf lausn í kerfinu til að unnt sé að tryggja 48 daga á hvern bát. Að öðrum kosti er mikilvægt að ráðstafa aflaheimildum á annan hátt en nú er gert svo strandveiðarnar nýtist landinu öllu og bátar á svæðum þar sem veiði er betri síðsumars fái að veiða á þeim tíma sem afli er mestur og verðmætastur.“
 
Hinn 19. júlí 2021 sl., að loknum 42 veiðidegi, var heildarafli á strandveiðum alls um 7.870 tonn, þar af um 7.280 tonn af þorski. Að meðaltali hefur því heildarafli á veiðidag verið tæp 190 tonn, þar af rúm 170 tonn af þorski. Að óbreyttu hefði því þurft að stöðva strandveiðar um miðjan ágúst.

„Með þessari aukningu til strandveiða er ráðgert að strandveiðisjómönnum verði gert kleift að stunda veiðar út ágúst. Þá mun þessi viðbótarráðstöfun einnig jafna stöðu milli einstakra veiðisvæða þar sem á sumum svæðum er besti veiðitíminn í ágúst,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.