Stórurð og Stapavík verði friðlýst svæði

Umhverfisstofnun, í samstarfi við landeigendur jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss yst á Fljótsdalshéraði hafa lagt fram hugmyndir að jarðirnar verði friðlýstar. Stórurð og Stapavík eru meðal náttúruminja sem falla innan friðlýsta svæðisins.

Í rökstuðningi með áformunum segir að á svæðinu sé afar fjölbreytt landslag þar sem fjöll, klettar, björg, víkur og tangar setji mikinn svip á landslagið. Víða megi sjá berghlaup og grjótjökla, þeirra frægast Stórurð.

Á svæðinu er fjölbreytt fuglalíf, en þar er meðal annars að finna tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Ennfremur eru á svæðinu sögulegar minjar, meðal annars gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík.

Reglur um friðlýst svæði eru mismunandi og fara eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við hagsmunaaðila.

Samkvæmt frétt á vef Umhverfisstofnunar miða friðlýsingaráform svæðisins að því að varðveita sérkenni og einkenni landslags þess, fagurfræðilegt og menningarlegt. Jafnframt er markmiðið að vernda vistgerðir, fugla og búsvæði þeirra og einstakar náttúrumyndanir vegna fræðilegs gildis, fegurðar og sérkenna.

Friðlýsingaráformin voru auglýst í sumar en undanfarna mánuði hefur staðið yfir samráð við landeigendur, sveitarfélög og fleiri hagsmunaaðila. Frestur til að skila inn athugasemdum við áformin rennur út á morgun.

Friðlýsing svæðisins er afurð átaks umhverfis- og auðlindaráðherra í friðlýsingum. Þær eru meðal annars ætlaðar sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna, en hluti svæðisins sem um ræðir hefur látið á sjá síðustu misseri vegna mikillar umferðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.