Stóri plokkdagurinn: Tíu plokkuðu á Stöðvarfirði

Stóri plokkdagurinn var haldinn á sunnudaginn var, þann 28. apríl. Það að plokka snýst um að tína upp rusl á förn­um vegi á meðan gengið er eða skokkað. Jóhanna Guðný Halldórsdóttir fór fyrir hópi plokkara á Stöðvarfirði. 

 

Jóhanna Guðný segir hafa gengið vel á sunnudaginn og er ánægð með þátttökuna á Stöðvarfirði. „Við vorum tíu saman hérna, það var mjög góð þáttaka við áttum von á að vera svona fjögur. Við náðum heilmiklu, vorum að í tæpa tvo tíma og náðum að fylla einn pikkup og meira til, við þurftum að fara tvær ferðar á bílnum.“

Jóhanna Guðný segir að það sé ekkert leiðinlegt að tína rusl heldur sé það góð leið til að njóta útiveru. „Mér finnst þetta gaman. Ég geng mikið og hjóla og ég er alltaf með rusl á hjólinu og alla vasa fulla. Ég beygi mig alltaf eftir rusli. Mér finnst þetta gaman, þetta er útivera og samvera.“

Víða var plokkað á Austurlandi á sunnudaginn, en Austurfrétt er kunnugt um leiðangra á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og Neskaupsstað og eflaust var plokkað víðar. Fjarðabyggð hvatti íbúa til að taka þátt í plokkdeginum og sótti það rusl sem safnaðist núna eftir helgina.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.