Stöðvarfjörður tekinn inn í Brothættar byggðir

Stöðvarfjörður verður í haust tekinn formlega inn í verkefnið Brothættar byggðir hjá Byggðastofnun. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vonast til að það verði bænum lyftistöng líkt og öðrum austfirskum byggðalögum sem farið hafa þar í gegn.

Brothættar byggðir eru verkefni Byggðastofnunar sem, eins og nafnið ber með sér, miðar að því að styðja sérstaklega við ákveðin byggðarlög sem teljast í mikilli vörn varðandi fækkun íbúa.

Upphaflega var sótt um aðgengi Stöðvarfjarðar að verkefninu árið 2014 en þá var Breiðdalsvík tekin inn og síðar Borgarfjörður. Átakinu á Borgarfirði er nú að ljúka og í byrjun sumars barst bæjarstjórn Fjarðabyggðar erindi frá Byggðastofnun þar sem lýst var yfir vilja til að taka Stöðvarfjörð inn næst.

Þessa dagana er verið að skipa verkefnisstjórnina sem í sitja fulltrúar frá Byggðastofnun, Fjarðabyggð, Austurbrú og íbúum. Fulltrúar íbúar verða væntanlega kosnir á íbúaþingi sem verður formlegt upphaf verkefnisins. Ekki er búið að ákveða hvenær það verði haldið en í samtali við Austurfrétt í dag sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri, að horft væri til seinni hluta október.

Hann kvaðst vonast til að verkefnið myndi lyfta Stöðvarfirði líkt og gerst hafi á bæði Borgarfirði og í Breiðdal.

„Við höfum séð Brothættar byggðir skilja eftir sig ýmsa vaxtarsprota hér fyrir austan. Þær hafa veitt innblástur í samfélögin og við væntum þess sama á Stöðvarfirði. Það verður til ákveðinn fókus á þessa byggðakjarna og í bæði Breiðdal og á Borgarfirði höfum við séð standa eftir tækifæri og verkefni sem dafna áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.