Stjórnmálamenn reyna að draga upp ímynd af sér sem manneskjur

Stjórnmálamenn nota samfélagsmiðla til að sýna sig sem fólk en ekki bara pólitíkusa. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, sem fjallaði um áhrif samfélagsmiðla á stjórnmálaumræður á LungA-hátíðinni.


„Það voru allir sammála um að sjónvarp hefði algjörlega breytt stjórnmálum og pólitískri umræðu og nú erum við í miðri umbreytingu, tæknibyltingunni, sem hefur áhrif á allt okkar starf. Stjórnmálamenn fara fram hjá hefðbundnum fjölmiðlum með að nýta samfélagsmiðlana og sleppa þá við gagnrýnar spurningar,“ segir Katrín í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Hún sagði að stjórnmálamönnum dygði ekki bara að berjast fyrir og tala um ákveðnar hugmyndir. Þeir yrðu líka að geta litið út sem áhugaverðar manneskjur.

„Sá sem talar bara um hugmyndir finnur að það er alltaf krafa að kynnast manneskjunni á bak við hugmyndirnar. Það sést meðal annars á samfélagsmiðlunum, þar er fólk að draga upp af sér aðra ímynd en bara konuna sem talar um skattahækkanir. Ég held þetta eigi við um okkur öll, við veljum hvað við sýnum á okkar ritstýrða miðli.“

Hún segir samfélagsmiðla bæði geta eflt pólitíska umræðu, til dæmis séu íslenskir kjósendur magrir hverjir ófeimnir að hafa beint samband við þingmenn. Á móti kemur að í vöxt færist að stjórnmálamenn sendi skilaboð sín beint út í gegnum samfélagsmiðla frekar en tala við hefðbundna fjölmiðla sem spurt geti gagnrýnna spurninga.

„Við getum stýrt umræðunni og það er umhugsunarefni. Samfélagsmiðlarnir hafa mátað sér mörk milli alvöru faglegra fjölmiðla og þeirra sem einstaklingar stýra.
Í stærri löndum er her manns á bak við samskiptamiðlasíðu stjórnmálamanns. Er það endilega gott fyrir lýðræðið?

Stjórnmálamenn geta komist hjá því að vera í fjölmiðlum og senda skilaboðin út á Twitter. Við sjáum fleiri dæmi um að valdamiklir stjórnmálamenn kjósa að hundsa umræðu gagnrýnna fjölmiðla. Það er hættulegt lýðræðinu.“

Katrín lagði í fyrirlestri sínum á hátíðinni áherslu á að samfélagsmiðlarnir kæmu ekki í staðinn fyrir almenna umræðu augliti til auglitis.

„Það er alltaf betra að tala við fólk. Ég hef hitt fólk sem hellt hefur yfir mig fúkyrðum á netinu en er allt annað í eigin persónu. Við tölum ekki nógu mikið saman augliti til auglitis.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.