Steingrímur J.: Vonbrigði að Framtakssjóðurinn skyldi ekki styðja við álkaplaverksmiðjuna

steingrimur_j_sigfusson_make.jpg
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu – og nýsköpunarráðherra, segir það hafa verið vonbrigði að Framtakssjóður Íslands skuli ekki hafa verið tilbúinn að leggja fé til uppbyggingar álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði. Vonir um þá uppbyggingu virðast nú að engu orðnar.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á Alþingi í síðustu viku þar sem málefni álkaplaverksmiðjunnar voru til umræðu. Um átta hundruð milljónir króna þurfti til að kaupa verksmiðju frá Noregi til Seyðisfjarðar en vilyrði var komið fyrir um 500 milljónum króna. Meðal þeirra sem voru viljugir til að leggja pening í verkefnið voru Síldarvinnslan og Byggðastofnun. Áætlað er að verksmiðjan hefði skapað 35 bein störf og annað eins hefði orðið til af óbeinum störfum.

Í andsvari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hóf umræðuna, lýsti ráðherrann vonbrigðum sínum yfir að Framtakssjóður íslensku lífeyrissjóðanna skyldi hafna því að vera með.

„Það var höfnun Framtakssjóðsins á að taka þátt og koma sem stór kjölfestuaðili inn í þessa fjárfestingu sem setti bakslag í verkefnið og það komst í raun og veru aldrei á skrið eftir það,“ sagði Steingrímur.

Hann segir höfnun Framtakssjóðsins hafa verið „mikil vonbrigði.“ Svo virðist sem sjóðurinn haldi sérstaklega að sér höndum í fjárfestingum á landsbyggðinni.

„Menn báru meðal annars fyrir sig staðsetninguna, að veð í húsnæði og annað því um líkt yrði þarna veikara en jafnvel bara í nálægum fjörðum. Þarna var um að ræða álitlegt verkefni úti á landsbyggðinni á stað sem hefur átt á brattann að sækja í atvinnulegu og byggðalegu tilliti. 

Mér fannst þetta kjörið tækifæri fyrir Framtakssjóðinn til að afsanna það sem margir hafa óttast að hann yrði ekki mjög viljugur til fjárfestinga úti um landið sem leiddi á sínum tíma til þess að vissir lífeyrissjóðir á landsbyggðinni eru ekki einu sinni þátttakendur í sjóðnum. 

Þeir höfðu áhyggjur af þessu sama eins og mér finnst því miður hafa komið á daginn að fjárfestingar sjóðsins hafi verið bundnar meira við starfandi stórfyrirtæki eða fyrirtæki í fjárhagslegri endurskipulagningu hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Steingrímur hafnaði því að ekki hefði verið vilji hjá ríkinu til að taka þátt í verkefninu. Sá stuðningur hafi verið til staðar í gegnum Byggðastofnun.

„Það var alveg ljóst að Byggðastofnun yrði studd til þess að taka þátt í þessu fyrir sitt leyti á þeim forsendum sem hún hafði lagt upp með, að vera með í þessu sem býsna stór aðili í samstarfi við Síldarvinnsluna í Neskaupstað í gegnum fjárfestingarsjóð þessara aðila.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.