Stefnt að jarðefnaeldsneytislausu Austurlandi

„Helsti tilgangur verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka orkunýtni á Austurlandi og draga fram áskoranir og kosti þess að hætta notkun jarðefnaeldsneyta í landsfjórðungnum,” segir Jón Steinar Garðarsson Mýrdal, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en stofnunin hlaut á dögunum 15 milljón króna styrk frá Alcoa Foundation fyrir verkefnið Orkuskipti á Austurlandi sem hefur verið starfrækt hjá Austurbrú frá árinu 2016.

„Verkefnið hefur farið mjög vel af stað. Unnið hefur verið að uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla í samstarfi við sveitarfélögin á Austurlandi. Þá hafa háskólanemar unnið verkefni hjá Austurbrú eða í samstarfi við Austurbrú sem tengjast orkuskiptum. Einnig er verið að vinna sviðsmyndagreiningu fyrir jarðefnaeldsneytislaust Austurland þar sem dregnar eru fram þær áskoranir og tækifæri sem felast í því að hætta brennslu á olíu í landshlutanum. Stefnt er á að afurðir verkefnisins nýtist í vinnu við gerð loftslagsáætlunar fyrir Austurland og frekari uppbyggingar verkefna á sviði orkuskipta. Verkefninu er ætlað að auka nýsköpun, aðstoða við fjármögnun og útvega verkefnastjóra ef þörf krefur,” segir Jón Steinar, en stefnt er að því að verkefninu ljúki haustið 2020.

„Við erum stoltir styrktaraðilar þessa þarfa verkefnis sem er frábært framtak hjá Austurbrú og við hlökkum til að sjá þegar Austurland verður orðið jarðefniseldsneytalaust hvað varðar bílaumferð,” segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.

Ljósmynd: Frá styrkafhendingunni, f.v. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Rosa García, framkvæmdastjóri Alcoa Foundation, Jón Steinar Garðarsson Mýrdal og Anna Alexandersdóttir frá Austurbrú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.