Stefnir að því að gera Fellabakarí að því besta á landsbyggðinni

Þráinn Lárusson, veitingamaður og eigandi 701 Hotels sem nýverið keypti Fellabakarí, setur markið hátt og ætlar að koma bakaríinu í fremstu röð hérlendis. Brauðbúð undir þess nafni mun opna á Egilsstöðum á næstu vikum og nýjar vörur munu líta dagsins ljós.

„Ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð við nokkru sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Það er auðsjáanlegt að fólki er hlýtt til bakarísins sem á sér langa sögu og hefur skoðun á því hvernig það eigi að vera.

Ég held ég hafi sýnt að ég geri það sem ég tek mér fyrir hendur með stæl og ég held að fólk bindi vonir við það. Ég er ekki að ýkja þegar ég segist ætla að gera þetta að besta landsbyggðarbakaríinu,“ segir Þráinn.

Ekki að umturna því sem vel er gert

Tvær vikur eru síðan tilkynnt var um að 701 Hotels hefðu keypt Fellabakstur, sem rekur Fellabakarí. Nýjum eigendum fylgja nær alltaf breytingar og segir Þráinn að þær fari að koma í ljós á næstu vikum. Hann heitir því þó að hald tryggð við vörur sem Austurfirðingar hafa sýnt að þeir kunna að meta.

„Það eru góð bein í þessu fyrirtæki en það hefur skort á markaðssetninguna. Fellabakarí hefur bakað góð matbrauð, svo ég tali ekki um flatbrauðið, rúgbrauðið, kleinurnar og ástarpungana. Við hróflum ekki við þessu nema við ætlum að pakka þeim í fallegar umbúðir og kynna vel.

Einhverjar vörulínur munu hverfa en við ætlum líka að kynna nýjar gerðir matbrauða, bæði súrdeigsbrauð og venjuleg brauð. Við eigum uppskriftir að nokkrum gerðum af öðruvísi rúgbrauði og ýmsum skemmtilegum gamaldagshlutum sem við höfum kannski ekki gert mikið með. Enn aðrar vörur munu ganga í endurnýjun lífdaga. Við ætlum að fá Gústa í Brauð & Co. (Ágúst Einþórsson) til að hjálpa okkur til að búa til framsæknar og vandaðar vörur.

Við erum ekki að fara að umturna því sem er vel er gert heldur gera það miklu betra,“ segir Þráinn.

Opnar ný tækifæri

Þá er von á nýjum vörulínum sem tengdar verða Fellunum, samlokum og brauðsalötunum sem ætlunin er að selja í verslunum um allt Austurland. „Við viljum sinna okkar samfélagi. Það er óþarfi að flytja samlokur hingað samlokur á hverjum degi frá Reykjavík og Akureyri. Okkar vörur verða ekki síðri.“

Vörur Fellabakarís hafa verið á boðstólunum í verslunum á svæðinu frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Þráinn segir að svo muni áfram verða og bætir því við að hann hafi hug á að sækja lengra, áhugi hafi borist víðar. Þráinn bendir á að dreifingarleiðir brauðsins opni leiðir fyrir fleiri vörur sem framleiddar eru á vegum 701 Hotels, einkum undir merkjum Salt express.

Brauðbúð á Egilsstöðum og aukið framboð á Salti

Breytingarnar verða ekki bara á vörunum sjálfum heldur líka hvar hægt verður að nálgast þær. Úrvalið á veitingastaðnum Salti, sem er í eigu 701 Hotels, verður stórlega bætt auk þess sem sérhæfð brauðbúð opnar á næstunni í miðbæ Egilsstaða.

„Við verðum í raun með tvö bakarí, annað fyrir norðan fljót og hitt fyrir austan. Það verða líka brauðbúðir á báðum stöðum.

Við munum loka búðinni í Fellabæ um einhvern tíma, trúlega eftir bolludag og endurbæta hana frá grunni. Því miður hverfur útsýnið af kaffihúsinu því við þurfum að nýta plássið undir framleiðsluna en þar verða áfram nokkur borð því við eigum fastakúnna sem vilja geta sest niður. Við munum opna fyrr á morgnana, klukkan sjö og vera með opið fram til klukkan trúlega tvö.

Á Egilsstöðum opnum við brauðbúð á næstu vikum í miðbænum þar sem fólk getur keypt úrvalsbrauð og bakkelsi. Þar opnar síðar og verður opið eitthvað lengur auk þess sem hún verður opin á sunnudögum. Þar verður hins vegar ekki hægt að setjast niður.

Saltið mun uppfylla þá þörf því við munum stórauka þjónustu þess sem kaffihúss. Þar verður í boði allt sem fólk vill kaupa á kaffihúsi. Við reyndum það á sínum tíma en keyptum þá bakkelsið annars staðar frá sem var óhagstætt því rýrnunin varð svo mikil. Að gera þetta verður miklu hagstæðara.

Þeir sem vilja kaupa brauð og bakkelsi eftir að brauðbúðirnar loka geta því komið við í Salti auk þess sem matbrauðið og mögulega fleiri vöruliðir verða þar í boði,“ segir Þráinn sem vonast til að Héraðsbúar sem aðrir taki breytingunum vel.

„Héraðsbúar hafa yfirleitt tekið því sem við höfum gert opnum örmum. Allt byggir þetta á að heimafólk stundi viðskipti við okkur og þá skilar það sér til baka inn í samfélagið í aukinni fjölbreytni og skemmtilegheitum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.