Stefna af stað klukkan sex til að ryðja vegi

Vegagerðin áformar að byrja opnun vega klukkan sex í fyrramálið ef spár um að bylurinn, sem gengið hefur yfir Austurland í dag og í gær, gangi niður rætast. Gular viðvaranir fyrir Austurland og Austfirði hafa verið framlengdar inn í nóttina.

Fjarðarheiði, Vatnsskarð, Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði hafa verið lokuð í rúman sólarhring. Fagridalur lokaðist í gærkvöldi en tekist hefur að halda honum opnum í dag.

Þar er merktur þæfingur en snjóruðningstæki eru á ferðinni. Dalurinn liggur lægra en margir fjallveganna en á móti er hann alræmdur fyrir hversu blint getur orðið þar.

Þá hefur Vegagerðin reynt að halda helstu leiðum út frá Egilsstöðum, svo sem upp í Fljótsdal um Hallormsstað og um Heiðarenda, opnum. Mikill snjór og skafrenningur er í fjórðungnum og því vandasamt að halda vegunum opnum því fljótt skefur í. Allvíða er þæfingur eða þungfært. Ástandið er skárra á fjörðunum, einkum þegar sunnar dregur.

Gul veðurviðvörun fyrir Austurland að Glettingi hefur verið framlengd til miðnættis en hún átti upphaflega að renna út klukkan sjö. Á Austfjörðum hefur viðvörun verið framlengd til klukkan tvö í nótt. Vonast er til að veðrið gangi eitthvað niður eftir það.

Hjá Vegagerðinni fengust seinni partinn þær upplýsingar að moksturstæki verði viðbúin til að fara af stað og ryðja helstu leiðir klukkan sex í fyrramálið ef storminn lægir að ráði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.