Stefán Grímur hættir í sveitarstjórn

Stefán Grímur Rafnsson, oddviti Betra Sigtúns í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps, hefur óskað eftir lausn frá störfum í sveitarstjórn frá og með áramótum vegna búferlaflutninga.

Erindi frá Stefáni þar sem hann biðst lausnar var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku. Þar tilkynnir Stefán Grímur að hann sé að flytja til Dalvíkur á nýju ári og missi þar með kjörgengi á Vopnafirði.

Í bréfinu þakkar hann kjörnum fulltrúum sveitarstjórum og starfsfólki hreppsins fyrir samstarfið undanfarin fimm árum sem og Vopnfirðingum fyrir að taka þátt í búa til til samfélagið þar.

Stefán Grímur hefur verið oddviti Betra Sigtúns frá því að framboðið kom fyrst fram í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna árið 2014. Framboðið var skipað ungu fólki sem vildi hrista upp í sveitarstjórnarmálunum og tókst það með að komast í oddastöðu við meirihlutamyndun.

Fyrst var myndaður meirihluti með K-lista félagshyggju og var Stefán Grímur oddviti sveitarstjórnar hluta tímabilsins. Hann var oddviti þegar meirihlutinn sprakk í desember 2017. Betra Sigtún og Framsóknarflokkur mynduðu nýjan meirihluta sem starfaði út kjörtímabilið með Stefán Grím sem oddvita.

Framboðin mynduðu aftur meirihluta að loknum síðustu sveitarstjórnarkosningum en sömdu um að Framsóknarflokkurinn færi með oddvitaembættið tvö fyrstu ár samstarfsins en Betra Sigtún tæki við því um mitt þetta ár.

Íris Grímsdóttir verður nú oddviti Betra Sigtúns, sem á tvo fulltrúa í sveitarstjórninni en hinn verður Teitur Helgason. Ragna Lind Guðmundsdóttir verður fyrsti varamaður framboðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.