Starfsmenn Sýslumannsins á Austurlandi óska liðsinnis sveitarfélaga

Starfsmenn embættis Sýslumannsins á Austurlandi hafa óskað liðsinnis sveitarstjórna á svæðinu til að þrýsta á að leysa úr fjárhagsvanda embættisins. Starfsmennirnir hafa tekið á sig lækkun á starfshlutfalli til að mæta hallarekstri.

Í byrjun febrúar var ellefu starfsmönnum embættisins sagt upp hluta stara sinna en boðið áframhaldandi starf gegn 10% lækkun á starfshlutfallinu. Að auki var samið við tvo starfsmenn um að lækka starfshlutfall sitt úr fullu starfi í hálft frá 1. maí.

Í bréfi sem starfsmennirnir hafa sent austfirskum sveitastjórnum kemur fram að ástæða aðgerðanna er að uppsafnaður rekstrarhalli embættisins var um 40 milljónir króna um síðustu áramót en hefði getað orðið 64 milljónir í lok þessa árs.

Vanfjármagnað frá fyrsta degi

Embætti Sýslumannsins á Austurlandi varð til með sameiningu Sýslumannsins á Eskifirði og Sýslumannsins á Seyðisfirði í byrjun árs 2015. Sameiningin var hluti af víðtækari aðgerðum þar sem sýslumannsembættum var fækkað og þau stækkuð. Hið sama var gert við embætti lögreglustjóra og var fjárveitingum eldri embætta skipt á milli þeirra nýju. Þá var öllum starfsmönnum gömlu embættanna lofað störfum hjá hinum nýju, sem á Austurlandi allir þáðu.

Í bréfi starfsmannanna kemur fram að launahlutfall embættanna hafi verið reiknað út frá launakostnaði ársins 2013 þegar tveir löglærðir fulltrúar hafi verið í leyfi. Þá skekkju hafi aldrei náðst að leiðrétta. Við bætist að embættin hafi verið vanfjármögnuð fyrir og þurft að taka á sig sameiningarkostnað.

Starfsmennirnir benda á að erfitt sé að halda úti óbreyttri þjónustu með lækkuðu starfshlutfalli. Hún sé kjaraskerðing því starfsfólki sé ætlað að sinna sömu störfunum og áður undir meira álagi.

Fjárlaganefnd viðurkennir að sameiningin mistókst

Við sameininguna var lýst yfir vilja af hálfu ríkisins til að afla sýslumannsembættunum nýrra verkefna. Í bókun meirihluta fjárlaganefndar með fjárlögum ársins 2018 segir að breytingarnar á embættunum hafi „því miður ekki tekist sem skyldi“ þar sem fjárveitingar til þeirra hafi ekki nægt til að standa við loforð um starfsmannahald og ekki verið unnið nógu markvisst að því að afla þeim nýrra verkefna. Þar er embættunum lýst sem mikilvægum og skorað á ríkisstjórnina að vinna að því ötullega að efla þau.

Starfsmennirnir óska eftir því að því að sveitarfélögin beit sér fyrir að embættið fái aukafjárveitingu til að greiða rekstrarhallann og reglulegar fjárveitingar þannig hægt sé að draga 10% starfsskerðinguna til baka. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur þegar komið málinu á framfæri og fleiri hafa heitið því að hafa samband við dómsmálaráðherra og þingmenn. Hætt er þó við að hæringar í dómsmálaráðuneytinu flýti ekki fyrir málinu.

Sýslumannsembættið er í dag með fjórar starfsstöðvar. Sú stærsta er á Seyðisfirði með átta starfsmönnum en einnig eru stöðvar á Eskifirði, Egilsstöðum og Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar