Starfsfólk Kleinunnar heyrði ekki í brunakerfinu

Starfsmenn í Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum, þar sem eldur kom upp í gær, heyrðu margir hverjir ekki í brunakerfinu. Slökkvistjóri segir að athugasemdir hafi verið gerðar við að brunakerfi hússins séu ekki samtengd en ekkert sé ólöglegt við það.


Austurfrétt hefur í kjölfar eldsvoðans í gærmorgun rætt við starfsmenn í húsinu sem segjast hafa heyrt lítið eða ekkert í brunakerfinu.

Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi, segir það skýrast af því að fjögur eldvarnakerfi séu í húsinu og þau séu ekki samtengd. Sérkerfi sé fyrir veitingastaðinn Salt þar sem eldur úr kolakerfi breiddist út í loftstokk í gær.

„Hver rekstraraðili hefur sett upp kerfi fyrir sitt svæði, sem er óheppilegt. Við höfum komið á framfæri athugasemdum um að þetta sé svona en það hefur ekkert verið gert í því,“ segir Baldur.

Húsinu, sem heimamenn nefna Kleinuna, er skipt upp í nokkur brunahólf og er eitt kerfi fyrir hvert þeirra. Baldur segir ekkert ólöglegt við að kerfinu séu ekki samtengd, eldvarnirnar hafi verið hannaðar eftir þeim reglum sem voru í gildi þegar húsið var byggt árið 1991.

Þetta fyrirkomulag er þekkt víða um land en Baldur segir það fátítt á starfssvæði Brunavarna, sem ná yfir önnur sveitarfélög Austurlands en Fjarðabyggð og Breiðdalshrepp.

Baldur telur að bruninn í gær hafi komið hreyfingu á hlutina í Kleinunni. „Það varð umræða í gær um að fara að skoða þetta upp á nýtt. Það kom berlega í ljós að það er óþægilegt að kerfin nái ekki til alls hússins þegar eitthvað stórt gerist.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.