Staðbundin framleiðsla í öndvegi á Djúpavogi

Kjörbúðin á Djúpavogi hóf nýlega að bjóða upp á sérmerktar framleiðsluvörur úr heimabyggð. Framleiðsla á matvörum í sveitarfélaginu og á nærliggjandi svæðum hefur færst í aukana síðustu ár og má þar til dæmis nefna matarsalt unnið úr sjó í Berufirði, sterkar sósur, byggflögur og ýmislegt fleira.

Um er að ræða formlegt samstarf Djúpavogshrepps við framleiðendur og Samkaup um merkingar og uppstillingar á vörunum þar sem þær eru til að mynda sérstaklega merktar Cittaslow hreyfingunni, sem sveitarfélagið er hluti af. Þar er áhersla lögð á umhverfisgæði, auk þess sem staðbundin matarmenning og framleiðsla er höfð í heiðri.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, segir vonir standa til þess að þetta muni hjálpa til við að hefja staðbundna framleiðslu til vegs og virðingar.

„Fyrst og síðast viljum við ýta undir að fólk nýti þær vörur sem hér eru framleiddar. Í þessu felst líka ákveðin yfirlýsing og þetta er í góðu samræmi við Cittaslow hugmyndafræðina, að fólk eigi að leggja rækt við það sem er nærri þeim sjálfum og taka hið staðbundna fram yfir það sem er lengra að komið.“


Austurland allt undir

Gauti segir vonir standa til að þetta sé aðeins byrjunin og að framboð staðbundinnar framleiðslu aukist í framtíðinni. Með því móti verði tengsl framleiðenda og neytenda meiri, virðing fyrir mat og raunvirði hans aukist og uppruni matvælanna verði öllum ljós.

„Um leið og við þökkum öllum sem taka þátt í þessum fyrsta áfanga með okkur, hvetjum við nýja framleiðendur og neytendur til að taka þátt í að hefja staðbundna framleiðslu til vegs og virðingar því saman getum við haft áhrif. Við lítum líka svo á að þetta nái yfir meira en bara vörur sem framleiddar eru í Djúpavogshreppi. Við erum til dæmis með vörur úr Vallanesi undir þessu merki og það má alveg segja að svæðið sem við horfum til nái frá Hornarfirði norður í Vopnafjörð. Það er staðbundið í okkar huga.


Samfélagsleg ábyrgð að leiðarljósi

Kjörbúðin er ein þeirra verslana sem Samkaup rekur. Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir samfélagslega ábyrgð hafða að leiðarljósi hjá öllum verslunum fyrirtækisins. Hluti af þessari samfélagslegu ábyrgð sé að efla staðbundna matvöruframleiðslu á landsbyggðinni.  

„Við viljum styrkja innviði landsins okkar og efla sjálfbærni þjóðarinnar. Hluti af því er að styrkja innlenda framleiðslu, hvort sem um ræðir matvörur eða aðrar vörur. Við höfum samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í öllum rekstri okkar og þess vegna er mikilvægt að efla staðbundna framleiðslu í þeim landshlutum sem við störfum,“ segir Gunnar Egill.

Gauti Jóhannesson sveitarstjóri og Ásdís Heiðdal, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Djúpavogi, fagna samstarfinu. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.