Staðan endurmetin 27. desember

Staða rýminga á Seyðisfirði verður endurmetinn næst mánudaginn 27. desember. Ekki verður heimilt að fara inn á rýmingarsvæðið fyrr. Vonast er til að skipulagðar hreinsunaraðgerðir hefjist þá.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum í kjölfar samráðsfundar viðbragðsaðila í morgun þar sem farið var yfir hvernig aðgerðum verði háttað um jólin.

Í gærkvöldi var gefið út kort með rýmingum sem verða í gildi í að minnsta kosti til 27. desember. Íbúar sem eiga húseignir innan rýmingarsvæðis hafa í dag getað gefið sig fram í Ferjuhúsinu og fengið fylgd í húsin til þess að sækja nauðsynjar eða annað lauslegt sem þeir vilja hafa yfir jólin. Þetta var með sama fyrirkomulagi og hefur verið síðustu daga og hefur fólk verið aðstoðað framundir myrkur.

Eftir það verður ekki leyfilegt að fara inná rýmingarsvæðið vegna óhagstæðrar veðurspár. Spáin gerir ráð fyrir hlýnun upp að 8°C og getur þá snjór farið að bráðna í fjöllum.

Þessar aðstæður geta raskað þeim stöðugleika sem hefur myndast í skriðusárunum og má í kjölfarið búast við einhverri hreyfingu á svæðinu.

Staðan verður endurmetin af Veðurstofunni þegar kólna fer aftur og rýmingarkortið endurskoðað 27. desember. Þá er einnig áætlað að hefja skipulagða vinnu við hreinsun og viðgerðir.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofan og lögreglan á Austurlandi verða í reglulegu sambandi yfir jólin og fylgjast með þróun mála.

Þjónustumiðstöð almannavarna er til húsa í Herðubreið, menningar- og félagsheimili Seyðisfjarðar, og verður opnunartíminn fram að áramótum eins og hér segir:

23. desember, klukkan 11 – 18
27-30 desember, klukkan 11 – 18
31. desember, klukkan 11 – 13
Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 839-9931

Frá Seyðisfirði í morgun. Mynd: Almannavarnir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar