SSA: Grundvellinum kippt undan almenningssamgöngum ef þessi dómur verður niðurstaðan

stefan_bogi_mai2012_web.jpg
Forsendur eru brostnar fyrir uppbyggingu almenningssamgangna landið um kring ef sérleyfi sem sveitarfélögin semja um við tiltekin fólksflutningafyrirtæki halda ekki. Héraðsdómur Austurlands hnekkti í dag lögbanni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á akstur Sternu á sérleyfisleiðinni Egilsstaðir-Höfn-Egilsstaðir.

„Við lítum niðurstöðuna mjög alvarlegum augum,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, varaformaður SSA.

„Ef þetta verður hin endanlega niðurstaða er ljóst að verið að kippa fótunum undan því verki sem hefur verið í gangi við að byggja upp skilvirkar almenningssamgöngur landið um kring á grundvelli þessara sérleyfa.“

Meginforsendur dómsins eru að akstur Sternu falli ekki undir reglubundnar áætlunarferðir í skilningi laganna. Farþegarnir hafi getað keypt sér hringmiða og síðan getað farið frá og um borð á stoppistöðvum.

„Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál að ríkið, sem semur við sveitarfélögin, hafi ekki tryggt að forsendur samkomulagsins héldu. Það gengur ekki að einkaaðilar geti komið og kollvarpað verkefninu með því að hirða rjómann af tekjunum í örfáar vikur á ári. Með því er enginn grundvöllur fyrir að reka almenningssamgöngukerfi.“

Í samtali við Austurfrétt tók Stefán Bogi fram að bæði hann og stjórn SSA ættu eftir að fara betur yfir dóminn. 

„Stjórn SSA ákveður hvort málinu verði áfrýjað og hún fundar í næstu viku. Mér þykir trúlegt að menn vilji fá niðurstöðu frá æðra dómsstigi. 

Við höfum talið okkur hafa góðan málsstað að verja í þessu máli og höfum enn trú á því. Þetta snýst um grundvallaratriði fyrir kerfið, ekki bara á Austurlandi heldur á landinu í heild.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.