Spurði hvort holan næði alla leið

Vegurinn til Borgarfjarðar er óvenju slæmur og lítið hægt að laga hann fyrr en þornar. Oddvitinn segir að ekkert nema bundið slitlag lagi veginn til frambúðar.


„Já, vegurinn er klárlega óvenju slæmur. Sem betur fer gerist ekki oft að hann er svona,“ segir Jakob Sigurðsson, bóndi í Njarðvík, vélaverktaki, bifreiðastjóri og oddviti Borgarfjarðarhrepps.

Færsla Sigurðar sonar hans á Facebook í dag hefur vakið mikla athygli en þar segir Sigurður frá því að hringt hafi verið í Jakob og hann spurður hvort hann gæti ekki fyllt upp í holuna á veginum um Njarðvík. Færslunni fylgja myndir sem sýna óteljandi vatnsholur í veginum.

„Ég sló þessu upp í grín og spurði hvort holan næði alla leið,“ segir Jakob.

Hin umrædda hola fannst, um 30 sm djúp við enda stutts klæðningarkafla þar sem komið er úr Vatnsskarði niður í Njarðvík. „Ég fann hana og eyddi. Þetta er eina holan sem farin er af veginum.“

Komið ofan í grjót

Ástand vegarins hefur verið í umræðunni síðustu daga, bæði vegna þess að það er óvenju slæmt en einnig vegna mikillar umferðar í tengslum við tónlistarhátíðina Bræðsluna. Samkvæmt teljurum Vegagerðarinnar fóru samtals tæplega 1500 bílar um veginn í gær og fyrradag.

Ekki er nýtt af nálinni að vegurinn sé holóttur í Njarðvíkurskriðunum en Jakob segir versta kaflann í veginum nú vera efst á skarðinu sjálfu og norðan megin í því, skammt ofan við bæinn Unaós. Þá sé vegurinn í Njarðvíkinni ekki góður.

Vegurinn var heflaður um miðja síðustu viku. „Það má deila um hvenær hefði átt að gera það. Það var þurrt fyrstu daga vikunnar og Héraðið, sem var tekið var þá, er miklu betra. Eftir að byrjar að rigna þýðir ekkert að hefla, það rennur bara úr og eftir verða vatnsholur.“

En það þarf meira en bara að hefla ofan í holurnar. „Malarlagið er farið úr veginum á löngum köflum og komið ofan í grjót. Burðarlagið er í lagi á Vatnsskarðinu en þar vantar fína efnið.

Vegagerðin er öll af vilja gerð en ræður ekki við svona aðstæður. Það er verið að reyna að sleikja smávegis ofan í veginn en það dugar í stuttan tíma.“

Þarf aukið fé til vegamála

Gert var ráð fyrir úrbótum á Borgarfjarðarvegi á samgönguáætlun sem samþykkt var í haust en hætt var við þær í vor. Jakob segir aðeins eina lausn í stöðunni.

„Það er bara bundið slitlag. Umferðin er orðin svo mikil og eykst á hverju ári. Við vitum að fjármunir Vegagerðarinnar eru takmarkaðir þannig þetta snýst um að stjórnvöld ákveði almennt að setja meiri peninga í vegagerð í landinu.“

Ekki er hægt að hefla veginn á ný fyrr en vatnið hefur minnkað. Vonast er til að hægt verði að ráðast í úrbætur í fyrramálið.

Ástandið á Vatnsskarði í dag úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.