
Sprenging í barnsfæðingum í Breiðdalshreppi
Óvenju margar barnsfæðingar verða í Breiðdalshreppi í ár þegar sjö börn fæðast á staðnum.
Frá hausti 2015 og til hausts 2016 er þó von á átta barnsfæðingum, en auk þessara sjö nýbura er ein fjölskylda að flytja á staðinn með barn fætt á þessu ári, en þetta merkir um það bil 34% fjölgun barna 16 ára og yngri í sveitarfélaginu.
Sif Hauksdóttir, skólastjóri grunnskólans á Breiðdalsvík og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála er vissulega himinlifandi með þessa tölfræði;
„Að sjá að unga fólkið vill koma til baka er svo gleðilegt og gefur von um áframhaldandi búsetu og uppbygginu á staðnum“ segir hún.
Ekki er búið að greina ástæðuna fyrir þessari fjölgun, en Björn Hafþór Guðmundsson sem er sérfræðingur IRR hjá sveitarfélaginu hefur ákveðnar skoðanir á því og var fljótur að semja um það eftirfarandi ferskeytlu:
Árangur til þúsund þátta
þrotlaust starf mitt ber;
Bráðum fæðast allt að átta
angar líkir mér.