Spáir góðu sumri fyrir Austfirðinga

Útlit er fyrir að suðlægar áttir verði ríkjandi í sumar og hiti yfir meðaltali. Útlit er fyrir að sumarið byrji með hlýindum.

Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson birti nýverið túlkun sína fyrir Ísland á spám þremur mismunandi veðurreiknilíkana fyrir tímabilið frá maí fram í júlí.

Þar er um að ræða spár um meðalveður sem að sögn Einars geta gefið vísbendingar um vik frá meðalhita, ríkjandi veður lag og jafnvel vindáttir. Nokkrar sveiflur geta þó átt sér stað innan tímabilsins.

Einar bendir á í spánni sé að finna meiri sunnan- og suðvestanvinda en að jafnaði og af nokkuð hlýjum uppruna, en þeir boða alla jafna góð tíðindi fyrir Austfirðinga.

Hitaspár bendi til þess að 60-70% líkur verði yfir meðaltali síðustu 30 ára norðan- og austanlands, en 20-40% að hann verði undir meðaltali með suður- og suðvesturströndinni.

Að sögn Einars er erfiðast að reikna úrkomu út frá spánum. 40-60% líkur eru á að úrkoma verði markvert meiri vestan- og norðanlands, en aftur er að finna vísbendingar um suðvestan- og vestan vinda, sem yfirleitt þýða þurrkatíð eystra, á kostnað austan- og norðaustanátta sem flytja með sér rigningu.

Og útlit er fyrir að sumarið byrji ágætlega fyrir Austfirðinga. Spáð er suðaustan átt fimmtudag og föstudag og 5-14 stiga hita. Einhver væta gæti þó fylgt suðaustanáttinni, einkum aðfaranótt og fyrri part föstudags.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.