Sóknarfæri í að selja fólki sem aldrei hefur búið úti á landi hugmyndina um að flytja

Sóknarfæri kann að vera fyrir landsbyggðina að bjóða til sín ungu fólki sem er að sligast undan háu húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu. Erfitt sé þó oft að kynna landsbyggðina fyrir þeim sem ekki hafa alist þar upp.

Þetta sagði Þuríður Árnadóttir á málþinginu Veljum Vopnafjörð fyrir skemmstu en það er liður í vinnu við að gera sveitarfélagið að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk.

Þuríður, sem ólst upp á Vopnafirði en flutti til Reykjavíkur í nám og lauk embættisprófi í guðfræði, segir ungt fólk í leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu standa frammi fyrir þeirri óvissu að geta misst húsnæðið nánast hvenær sem er.

Þá séu þrír kostir í stöðunni. Að kaupa húsnæði, finna annað leiguhúsnæði fyrir 200.000 krónur á mánuði eða flytja út á land. „Það er langlangbesti kosturinn í stöðunni,“ sagði Þuríður.

Leikskólamálin í molum í borginni

Erfitt reynist hins vegar að sannfæra þá sem alist hafi upp á höfuðborgarsvæðinu að flytja út fyrir það en tækifærið til þess sé núna.

„Það eru ótrúlegar hugmyndir sem fólk sem aldrei hefur búið úti á landi hefur um lífið þar, til dæmis eins og vandamál sem fylgja því að búðin sé lokuð á sunnudögum. Þá ferðu bara á laugardögum.

Maðurinn minn hafði bara séð eymdina í íslenskum bíómyndum en ég dró hann með mér austur á sumrin og nú vill hann helst bara vera hér. Hér er nálægð við náttúruna og kyrrðina auk þess sem leikskólamál eru í molum í borginni þar sem börn komast ekki á leikskóla fyrr en 2,5 ára.“

Samgöngumál eru stærsti ásteytingarsteinninn. „Dýra flugið fælir frá. Fólk vill komast suður til að hitta fólkið sitt og fá þjónustu sem ekki er hér.“

Að tala staðinn upp

Þuríður sagði að ekki þyrfti eingöngu að kynna Vopnafjörð fyrir þeim sem aldrei hafi búið þar heldur þurfi að búa þannig um hnútana að þeir sem alist þar upp vilji búa þar í framtíðinni.

„Það þarf að selja börnum og unglingum snemma hugmyndina um að þau geti orðið hvað sem þau vilja en samt búið á Vopnafirði. Sú fræðsla fer aðallega fram á heimilum.

Ég hef alltaf stefnt að því að snúa heim en þannig hefur það ekki endilega verið hjá vinum mínum. Heima hjá mér var staðurinn alltaf talaður upp. Við verðum að vera bjartsýn og tala staðinn upp.

Ungmennin þurfa að þekkja hvað er í boði. Fólk sér bara fisk og kindur en það vilja ekki allir vinna við það.“

Þuríður sagði það einkum íbúa á staðnum að búa til tækifærin. Eins væri hægt að nýta þekkingu þeirra sem flust hafa að heiman til mennta. „Það er erfitt að fá fólk heim til að byggja upp samfélagið með okkur. Það vill bara koma þegar ástandið er orðið gott.“

Stelpurnar vilja komast í burtu

Talsverð umræða skapaðist um aðstæður ungra Vopnfirðinga á fundinum en Margrét Gauja Magnúsdóttir, sagði Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrum náms- og starfsráðgjafi við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS) sagði landsbyggðina þurfa að taka aðstæður ungs fólks alvarlega.

Víða væri staðan þannig að unga fólkið upplifið að skoðanir þess skiptu ekki máli. Unga kynslóðin hafi skoðanir og sé tilbúin að keyra breytingar áfram.

Hennar mat var að Vopnfirðingar þyrftu að taka stöðu ungmennanna alvarlega. „Þið eruð í vandamálum. Ég spurði krakkana í efstu bekkjum grunnskólans hver þeirra sæju fyrir sér að búa á Vopnafirði í framtíðinni og það voru tvö af 20 sem réttu upp hönd.

Stelpurnar voru allar mjög skýrar, glætan að þær verði hér. Það er eitthvað hér sem virkar ekki og þið verðið að taka þessa skýringu alvarlega.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.