Skip to main content

Skreyta sementstankana á Reyðarfirði myndum frá stríðsárunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. maí 2025 10:56Uppfært 07. maí 2025 10:58

Gerður hefur verið samningur við listamanninn Stefán Óla Baldursson, gjarnan þekktur sem Mottan, um að myndskreyta sementstankana á Reyðarfirði í sumar.

Um tíma hefur komið til tals hjá Fjarðabyggð að fjölga með einhverjum hætti útilistaverkum í bæjarkjörnum sveitarfélagsins. Í því tilliti hefur meðal annars verið horft til sementstankana við Ægisgötu á Reyðarfirði enda standa þeir hátt, sjást víða að og sumum þykir helst til mikið lýti á miðbæjarbragnum.

Nú hefur verið tekið af skarið með ákvörðun og samþykki bæjarráðs og segir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu, sem umsjón hefur með verkefninu að Stefán Óli gæti hafið verkið fljótlega um eða eftir næstu mánaðarmót.

Ætlun Stefáns Óla er að skreyta tankana með myndefni frá stríðsáratímanum og hafa starfsmenn Menningarstofu verið að leita uppi hentugar myndir á síðustu dögum sem hentað gætu vel á stóra tankana og á sama tíma minnt gesti á merka sögu bæjarins áður fyrr.

Á meðfylgjandi mynd gefur að líta þær tillögur sem Stefán sendi upphaflega inn þegar óskað var eftir tillögum að verkum á tankana en alls var leitað til þriggja aðila um verkið. Sjálfur hefur Stefán mikla reynslu af listsköpun á húsveggjum víðs vegar í höfuðborginni og víðar og margsinnis hlotið lof fyrir.