Skoska leiðin var mikilvægt innlegg í umræðuna

Starfshópur um framtíð innanlandsflugs leggur til að fargjöld fyrir þá sem búa fjarri Reykjavík verði niðurgreidd um 50% frá árinu 2020. Formaður hópsins segir góðan stuðning við hugmyndir um að skilgreina innanlandsflug sem almenningssamgöngur á Alþingi.

„Auðvitað er fólk óþolinmótt en það er ekki svo langt síðan þessar hugmyndir komu fram og ég er ánægður með hversu hratt þær hafa gengið, miðað við mörg önnur mál,“ segir formaður hópsins, Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Tillaga hópsins byggir á hinni svokölluðu skosku leið um að niðurgreiða flugferðir íbúa á dreifðum svæðum. „Það skiptir máli að jafna aðgengi að þeirri þjónustu sem byggð hefur verið upp miðlægt,“ útskýrir Njáll Trausti.

Pólitískur vilji fyrir hendi

Skýrslan, sem bæði fjallaði um framtíð innanlandsflugs og rekstur flugvalla landsins, er nú komin í hendur samgönguráðherra. Njáll Trausti segir ráðherrann hafa lýst áhuga á að nýta niðurstöður skýrslunnar, einkum þann hluta sem snýr að flugvöllunum, í samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi.

Líklegra er þó að þorri almennings hafi meiri áhuga á tillögunum um niðurgreiðslurnar sem ætlað er að gera flug aðgengilegra og auka um leið sætanýtingu. Áætlað er að þær kosti 600-800 milljónir árlega og komi til framkvæmdar árið 2020. „Þetta þarf fyrst að fara inn í fjármálaáætlun, sem yrði á vormánuðum og svo í fjárlög næsta haust.

Ég held að það sé pólitískur vilji fyrir hendi til að þetta verði að veruleika. Einn af áherslupunktum byggðaáætlunar, sem samþykkt var í júní, var að niðurgreiða innanlandsflug á þeim forsendum að það væri almenningssamgöngur.“

Aðrar leiðir fyrir aðra hópa?

Austfirðingar og fleiri íbúar á landsbyggðinni hafa löngum barist fyrir lægri flugfargjöldum. Skriður komst hins vegar á málið eftir að Austfirðingar kynntu til sögunnar fordæmi frá Skotlandi, sem reyndar er þekkt víða um Evrópu. „Skoska leiðin var mjög sterkt innlegg í umræðuna og sú vinna sem var lögð í hana,“ segir Njáll Trausti.

Í skýrslunni er bent á að leiðin nýtist aðeins einstaklingum með lögheimili í dreifbýlinu. Hún nái ekki til fyrirtækja, stofnana eða ferðamanna. Möguleiki sé að koma á hámarksfargjaldi og jafnvel blanda aðferðunum saman. „Skoska leiðin snýr að almenningi. Það eru allt aðrar ákvarðanir sem snúa að öðrum hópum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar