Skólar opnir en lokaákvörðun foreldra

Kennt er í skólum í Fjarðabyggð, á Djúpavogi og Seyðisfirði í dag en foreldrum falið að meta hvort þeir sendi börn sín til skóla. Veður er að versna á Austurlandi þótt veðurspár séu skárri en þær voru í gærkvöldi. Vegagerðin hjálpaði einum vegfarenda á Fagradal í morgun en leiðin er meðal þeirra sem hefur verið lokað.

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi kom saman í stjórnstöð á Egilsstöðum klukkan fjögur í nótt og aðgerðastjórn hefur einnig verið virkjuð á Eskifirði. Þar verður vakt eftir því sem þurfa þykir fram eftir degi. 

Hjalti Bergmann Axelsson, aðalvarðstjóri, segir að þar sé verið að bíða eftir að veðrið versni af alvöru. „Upp úr klukkan sex sáum við vindtölurnar á veðurstöðvunum fara beint upp. Veðrið hefur líka verið að versna í bænum þótt það sé ekki orðið verulega slæmt enn þá.“

Samkvæmt tilkynningum frá skólum og sveitarfélögum á Djúpavogi, Seyðisfirði og Fjarðabyggð eru skólar þar opnir í dag þótt veðurspáin sé slæm. Foreldrum er hins vegar falið að taka lokaákvörðun um mætingu barna sinna og fylgja og sækja þau yngstu. Á Seyðisfirði hefur tónleikum sem halda átti í dag verið frestað. Skólahaldi á Vopnafirði og Fljótsdalshéraði af aflýst strax í gærkvöldi.

Vegunum yfir Fjarðarheiði, Fagradal, Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfi og til suðurs frá Djúpavogi hefur verið lokað. Sandvíkurheiði og Vatnsskarð eystra eru merkt ófær í kortum Vegagerðarinnar. Snjókoma er á Fljótsdalshéraði og þar fer færð versnandi, og óveður í Vopnafirði en hálka meðfram fjörðum. Veðrið virðist þó vera að færast yfir firðina.

Ein aðstoðarbeiðni barst frá ferðalangi sem lagði á Fagradal áður en lokað var þar um klukkan sjö í morgun. Vegagerðin kom honum til aðstoðar og er hann á leið til byggða.

Spár Veðurstofu Íslands gera enn ráð fyrir norðan hvassviðri, 20-28 m/s í dag. Miðað við nýjustu spár Belgings mun veðrið ekki náð sömu hæðum og spáð var í gærkvöldi. „Það kann að vera að það verði ekki jafn slæmt og spáð var en það verður samt slæmt,“ segir Hjalti.

Hann bætir við að einna mestar áhyggjur séu af raflínum á Austurlandi en hætt við sé mikilli ísingu í veðri sem þessu. Víða varð rafmagnslaust á Norðurlandi þegar veðrið gekk þar yfir í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.