Skoða seiðaeldi í Reyðarfirði

Fiskeldisfyrirtækið Laxar vill skoða möguleika á að koma upp seiðaeldisstöð í Reyðarfirði sem myndi nýta varmaorku frá álveri Alcoa Fjarðaáls. Framkvæmdastjóri Laxa segir hugmyndina á frumstigi.

„Þetta eru framtíðarpælingar og óvíst að af þessu verði en fyrirtækjarekstur gengur út á að horfa bæði til lengri og skemmri tíma,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa.

Bæjarráð Fjarðabyggðar tók erindi frá Löxum fyrir á síðasta fundi sínum fyrir páska og samþykkti að hefja viðræður við Laxa um mögulega uppbyggingu seiðaeldis í Reyðarfirði. Tillögurnar gera ráð fyrir að eldið yrði í landi Flateyrar, sem er næsta býli fyrir utan álverslóðina á Hrauni.

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð og forsvarsfólk Alcoa hafa að undanförnu skoðað möguleika á nýtingu varma sem fellur til frá álbræðslunni til að hita hús á Reyðarfirði. Þann varma væri mögulega hægt að nota í fleira. „Það hafa verið uppi ákveðnar hugmyndir um nýtingu varma sem kemur frá álverinu. Ef af þeim verður á einhverjum tímapunkti þá væri hægt að nýta hana í starfsemi sem þessa,“ segir Jens.

Hann segir málið enn á algjöru forstigi en ákveðið hafi verið að óska eftir samstarfi við Fjarðabyggð um að skoða málið frekar. Laxar reka í dag þrjár eldisstöðvar í Ölfusi og áforma frekari uppbyggingu þar á næstunni. Fyrirtækið er með sjókvíaeldi í Reyðarfirði og eru seiði flutt í það úr eldisstöðvunum fyrir sunnan land.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.