Skoða samstarf milli Hallormsstaðaskóla og Háskóla Íslands
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. nóv 2023 11:48 • Uppfært 29. nóv 2023 11:48
Skrifað var undir viljayfirlýsingu í gærkvöldi um að skoðaðar verði forsendur samstarf milli Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla. Hallormsstaðaskóli stefnir á að fá nám sitt viðurkennt sem formlegt háskólanám.
Það voru Bryndís Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sem undirrituðu viljayfirlýsinguna á Hallormsstað í gærkvöldi.
Stefnubreyting varð hjá Hallormsstaðaskóla haustið 2019 þegar þar hófst kennsla á nýrri námsbraut í Skapandi sjálfbærni. Það varð þó til þess skólinn varð á óræðu svæði í íslenska menntakerfinu því námsbrautin er á fjórða hæfniþrepi, sem er viðbótarnám eftir framhaldsskólapróf.
Staðan breyttist enn frekar með breytingu á menntamálaráðuneytinu fyrir tveimur árum þegar háskólar voru færðir undir sérstakt ráðuneyti en framhaldsskólanámið varð eftir í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Hallormsstaðaskóli heyrir undir síðarnefnda ráðuneytið í dag en aðkoma háskólaráðuneytisins þýðir stuðning við athugun á samstarfinu.
Háskólanám á Hallormsstað
Viljayfirlýsingin felur í sér formlegar viðræður skólanna um samvinnu um nám í skapandi sjálfbærni á háskólastigi sem fram færi í Hallormsstaðaskóla í samvinnu á vegum HÍ. Skipaður verður starfshópur með tveimur fulltrúum frá hvorum skóla sem skoða á mögulegt samstarf. Eitt af því sem farið verður yfir er hvernig HÍ geti aðstoðað Hallormsstaðaskóla til að fá nám sitt viðurkennt sem nám á háskólastigi sem veitir nemendum viðurkenningu að loknu námi.
Fram kemur í viljayfirlýsingunni að með samstarfi við Hallormsstaðaskóla verði hægt að bjóða nemendum Háskóla Íslands upp á sérhæft og verklegt rannsóknarnám undir faglegri handleiðslu sérfræðinga á sviði sjálfbærni, hönnunar, umhverfis- og loftlagsbreytinga, matvælagerðar og fleiri greina.
Jón Atli sagði við undirritunina í gær að námsleið Hallormsstaðaskóla í skapandi sjálfbærni hefði vakið athygli innan skólans. Fulltrúar skólans komu austur í sumar til að skoða aðstæður á Hallormsstað og óformlegt samtal stjórnenda skólanna staðið yfir í nokkra mánuði.
„Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir brýnum áskorunum vegna bæði samfélagsbreytinga, loftlagsbreytinga og þjóðflutninga á alþjóðavísu. Nám í Hallormsstaðaskóla hefur á síðustu árum tekið breytingum í takt við þessa þróun, þar sem nýsköpun og sjálfbærni er höfð að leiðarljósi, og á sama tíma hefur Háskóli Íslands lagt vaxandi áherslu á sjálfbærni í rannsóknum og kennslu, m.a. með innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfsemi skólans,“ segir í tilkynningu sem Háskóli Íslands sendi frá sér í dag.
Fyrstu skrefin næsta haust
Á þessari stundu liggur ekkert frekar fyrir um hvernig víðtækt samstarf skólanna, hvað það mun fela í sér eða hvernig því verður háttað. Starfshópurinn stefnir á að skila af sér tillögum í voru þannig að hægt verði að stíga fyrstu skrefin í umbreytingum fyrir næsta skólaár.
Í máli allra þriggja í gærkvöldi kom fram von um að samstarfið yrði liður í að byggja upp staðbundið háskólanám á Austurlandi.