Skiptir mestu hvernig tekst að nýta Sláturhúsið íbúum til góðs - Myndir

Menningarmiðstöðin Sláturhúsið á Egilsstöðum hefur verið opnað á ný eftir gagngerar endurbætur. Þar með er lokið fyrri þætti af tveimur af uppbyggingu menningarhúss á Egilsstöðum með stuðningi ríkisins. Formaður bygginganefndar segir virði hússins til framtíðar verða mælt í því hvernig til tekst við nýtingu þess.

„Ég man fyrstu viðbrögð fjölmargra íbúa þegar ákveðið var að breyta sláturhúsinu í menningarhús. Margir höfðu minningar frá fyrri starfsemi og fannst þetta alls ekki viðeigandi. Þeim var síðan eilítið storkað með að láta húsið halda fyrra nafni sínu.

Tíminn hefur síðan unnið með þeim sem höfðu framsýnina og efasemdaröddunum hefur fækkað. Við kosningarnar 2010 lofaði kjósandi því að kjósa minn flokk ef við létum af vitleysunni með Sláturhúsið. Ég seildist ekki í þetta atkvæði,“ sagði Karl S. Lauritzson, sem undanfarin ár hefur verið formaður byggingarnefndar hússins við opnun þess að loknum gagngerum endurbótum nýverið.

Menningarhúsið lofað árið 1999

Fleiri en Karl rifjuðu upp langan aðdraganda þessa dags. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, rakti það aftur til ársins 1999 þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að veita stofnstyrki til byggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins. Eitt þeirra átti að vera á Egilsstöðum. Í miðbæjarskipulagi nokkrum árum síðar var gert ráð fyrir menningarhúsi í norðurhluta þess en fjármálahrunið 2008 gerði út af við skipulagið.

Björn kom til starfa árið 2010 og þá var aftur farið að skoða skipulagið og þar með útfærslu hússins. Hann sagði að virkjaðir hefðu verið starfshópar og þótt ekki hefði verið samstaða innan þeirra um hvaða leið skyldi farin í byrjun, hefði niðurstaðan orðið góð, það er að segja sú að byggja upp Sláturhúsið og byggja síðan nýja burst við Safnahúsið. Þegar málið var komið lengra var sömu bygginganefndinni falið að vinna að framgangi beggja verkefna. Í máli Karls kom fram að innan nefndarinnar hefði orðið einhugur um að klára framkvæmdir við Sláturhúsið áður en farið yrði í Safnahúsið.

Svo hringdi hann aftur, og aftur – og aftur!

En á leiðinni hefur nokkrum sinnum verið skipt um meirihluta og meira að segja sveitarfélag auk þess sem ráðherrar menningarmála hafa komið og farið. Núverandi ráðherra hefur þó setið frá 2017 en áður hafði viljayfirlýsing verið undirrituð. Málið kom snemma inn á hennar borð.

„Ég var nýkomin í ráðuneytið þegar sveitarstjórnarmaður héðan, Stefán Bogi (Sveinsson) hringir og fer að tala um Sláturhúsið. Ég vissi ekki mikið enn en svo hringdi hann aftur og aftur og aftur. Honum var greinilega alvara. Hann sagðist síðan þurfa að koma í ráðuneytið og ræða þetta við mig, þá var hann örugglega búinn að hringja sjö sinnum.

Hann mætti mjög einbeittur og brann fyrir málefninu. Ég var varkár þannig hann varð ekki ánægður. Þegar hann kom út af fundinum hringdi hann í aðstoðarmann minn og kvartaði, sagðist hafa fengið loðin svör. Málið hefði verið í undirbúningi frá árinu 1999 og hann ætlaði ekki að trúa því að ráðherrann ætlaði að draga lappirnar,“ sagði Lilja við opnunina. Hún bætti við að hún hefði ekki viljað sýna á spilin þótt henni litist strax vel á hugmyndir Héraðsbúa um endurbyggingu Sláturhússins. Gengið var frá formlegum samningi milli ríkis og sveitarfélags vorið 2018.

Hjartað í svarta kassanum

Framkvæmdirnar eru viðamiklar, nánast búið að endurbyggja húsið undanfarin tvö ár. Búið er að taka niður veggi til að opna á milli rýma, skipta um þak og stækka glugga svo dæmi séu tekin. Opnunarathöfnin var haldin í frystiklefa á efri hæð hússins sem fram til þessa hafði lítið verið notaður. Þar hefur nú verið útbúið svokallaður svarti kassi (black box), sviðslistarými sem er jafnvígt á alla kanta og því hægt að staðseta sviðið hvar sem er innan þess.

„Þetta er eitt stærsta og glæsilegasta black box-rými landsins og gerir Sláthúsinu kleift að sinna hlutverki sínu sem sviðslistamiðstöð Austurlands enn betur en áður,“ sagði Ragnhildur Ásvaldsdóttir, núverandi sláturhússtjóri. Lilja sagði einstaklega vel hafa tekist til við hönnun hússins og rýmið glæsilegt. Að nýta það væri ekki bara tilhlökkunarefni fyrir Austfirðinga heldur þá sem heimsæktu svæðið því innan ráðuneytis hennar, viðskipta- og menningarmála, væri unnið að betri samþættingu ferðaþjónustu og menningar.

Rýmið er þegar komið í notkun. Þjóðleikhúsið sýndi þar daginn eftir opnun og Leikfélag Fljótsdalshéraðs á tvær sýningar eftir á uppfærslu sinni á Gulleyjunni. Þá er von á Íslenska dansflokknum síðar í þessum mánuði. Annars staðar í húsinu eru komnar upp listsýningar. Sú fyrsta eftir endurbætur, hnikun, er enn uppi, en í henni er sótt í sögu og fyrra hlutverk hússins. Þá skírði Ragnhildur frá því að Þór Tuliníus hafi skrifað nýtt barnaleikverk sem leikhópurinn Svipir muni setja upp þar á næsta ári.

Ormsstofa opnar í vetur

Ekki er heldur allt búið enn. Frystiklefi á neðri hæð hússins hefur til þessa verið það rými sem notað hefur verið undir tónleika og sviðslistir. Þar eru framkvæmdir í gangi við Ormsstofu sem opna á í vetur. Á fyrstu sýningunni verða verk nema úr Listaháskóla Íslands um loftslagsvána út frá sjónarhóli yngri kynslóða. Það rými er styrkt af Landsvirkjun.

„Við viljum að ávinningurinn af starfsemi okkar skili sér til nærsamfélagsins og þessa vegna tökum við þátt í samtali og samstarfi og styðjum við verkefni sem þetta sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Menningarmiðstöðin er gott dæmi um slík verkefni og við erum mjög stolt af að hafa veitt framlag til enduruppbyggingarinnar,“ sagði Jóna Bjarnadóttir, forstöðumaður samfélags- og umhverfissviðs Landsvirkjunar.

Ódýrara en nýbygging

Karl sagði ekki tímabært að gefa upp kostnaðartölur við endurbæturnar þar sem framkvæmdum væri ekki að fullu lokið. Það yrði opinberað þegar svo yrði. Hann skýrði frá því að nefndin hefði verið sammála um að hafa innri umgjörð einfalda, ekki bara til að spara kostnað, heldur líka til að binda ekki hendur listafólks sem nýtti rýmið. Hann sagðist telja verð á hvern þeirra 1500 fermetra sem húsið er undir helmingi þess sem nýtt hús hefði kostnað.

Mest um vert væri þó hvernig húsið nýttist en hann óskaði gestum til hamingju með nýtt upphaf menningarstarfsemi á Fljótsdalshéraði. „Við mælum ekki virðið svona eignar í byggingakostnaði heldur hvernig tekst að nýta hana íbúum til góðs. Ef húsið er vannýtt þá hefur fjárfestingin misfarist og eigin er lítils virði. Ég held að hér höfum við skapað góða umgjörð utan um næstu kynslóðir og því er ég sannfærður um að hún sé mikils virði.“

Slaturhus Opnun Sept22 0004 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0012 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0015 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0022 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0026 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0030 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0043 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0050 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0051 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0056 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0078 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0086 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0087 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0090 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0092 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0093 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0095 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0097 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0099 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0103 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0105 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0106 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0107 Web
Slaturhus Opnun Sept22 0108 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.