Skipta þarf um þak á Múlavegi 34-40 vegna myglu

Fyrir liggur að skipta þarf um þökin á íbúðarhúsnæðinu að Múlavegi 34-40 á Seyðisfirði vegna myglu. Úlfar Trausti Þórðarson, byggingafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar segir að fyrir liggi áætlun um nauðsynlegar aðgerðir en þær bíði þess að fjárveiting fáist í fjárhagsáætlun bæjarins.

Mygla kom upp í húsnæðinu fyrir tæpum tveimur árum í gólfum og kjallara þess. Úlfar Trausti segir að strax hafi verið bruðist við með því að drena í kringum bygginguna til að koma í veg fyrir að regnvatn safnaðist upp þar eins og gerst hafði um árabil.

„Það safnaðist töluvert vatn saman undir húsinu sem olli myglunni,“ segir Úlfar Trausti. „Eftir að við brugðumst við því hvarf myglan þar en við skoðun í ár á þakinu kom í ljós að þar var einnig vandi til staðar.“

Aðspurður um hvort myglan hafi ógnað heilsu íbúanna segir Úlfar Trausti að það sé aldrei gott að hafa myglu í húsum. Hinsvegar hafi margir íbúanna verið tregir til að yfirgefa hýbýli sín og í sumum tilvika ekki talið að um mikið vandamál væri að ræða. Húsið er raðhús með fjórum íbúðum ætlaðum eldri borgurum.

Úlfar segir að bíða verði eftir fjárveitingu þar sem um kostnaðarsamt verk væri að ræða. „Það gengur ekki að reyna að skipa út þakinu í bútum. Það þarf að gera þetta allt í einum rykk.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.