Skipað að fjarlægja hana úr íbúabyggð

Íbúa á Reyðarfirði hefur verið skipað að fjarlægja tvo hana úr híbýlum sínum. Hanahald er bannað í Fjarðabyggð og nágrannar hafa kvartað undan fuglunum.

„Okkur hafa borist þó nokkrar kvartanir út af hanagali,“ segir Leifur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

Á síðasta fundi nefndarinnar er bókað að kvartanir hafi borist vegna ónæðis af völdunum tveggja hana sem haldnir séu í íbúahverfi á Reyðarfirði.

Samkvæmt samþykktum Fjarðabyggðar um fiðurfé utan skipulagðra landbúnaðarsvæða ber þeim sem hyggjast halda fugla að sækja um leyfi til sveitarfélagsins. Að því fengnu má halda að hámarki tíu hænur eða endur eða sex dúfur. Óheimilt er að halda hana og gæsir.

Fram kemur í bókun heilbrigðisnefndar að eigenda hananna hafi verið skrifað bréf og veittur frestur til 28. maí til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sá frestur hafi verið framlengdur í tvígang til 8. júní.

Samkvæmt upplýsingum frá HAUST voru fuglarnir enn við húsið síðast þegar athugað var. Eigandanum hefur verið veitt áminning vegna brota á samþykktinni um fiðurféð auk þess sem hann hefur frest út daginn í dag til að fjarlægja þá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.