Sjötti dagurinn án smits

Ekkert covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi síðustu sex daga og áfram fækkar í sóttkví. Niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar eru hins vegar ókomnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Í dag eru sléttar tvær vikur frá því að fyrsta tilfellið var staðfest. Síðan hafa sex bæst við. Allir þessir sjö einstaklingar sæta enn einangrun.

Í sóttkví eru 38 manns og hefur fækkað um 16 frá í gær.

1500 sýni voru tekin á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um helgina. Fyrstu sýnin fóru suður strax á laugardag en ekki tókst að senda sýni aftur fyrr en á mánudag vegna óveðurs á sunnudag.

Þá hefur Íslensk erfðagreinin greint sýni á landsvísu fyrir sóttvarnalækni vegna bilunar á rannsóknastofu Landsspítala. Tölfræði úr skimunni eystra liggur því ekki enn fyrir en verður kynnt þegar hún berst.

Einstaklingar fá SMS skilaboð þegar niðurstöður þeirra liggja fyrir og geta þeir vitjað þeirra á heilsuvera.is. Hringt verður í þá sem greinast með veiruna.

Í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar segir að á sama tíma og niðurstöðurnar gefi ágætar vonir um þróun smita minni hún á að lítið megi út af bregða til að þeim fjölgi hratt.

Páskaskipanin er því þessi:
- Verum heima
- Virðum tveggja metra regluna
- Förum sjaldan í matvörubúðir, gerum stærri innkaup í hvert sinn
- Verum góð við afgreiðslufólk, fylgjum leiðbeiningum með brosi á vör
- Gerum þetta saman

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.