Sjaldæft að sjá þrumur og eldingar á þessum árstíma

Íbúar á bæði Egilsstöðum og Seyðisfirði urðu varir við þrumur og eldingar á tólfta tímanum í gærkvöldi. Veðurfræðingur segir slík veðurfyrirbrigði sjaldgæf á þessum árstíma en sérstök skilyrði hafi myndast í gærkvöldi.

Íbúar á Egilsstöðum urðu varir við 5-10 eldingar undir miðnætti í gærkvöldi. Austurfrétt hefur einnig spurnir af eldingum á Seyðisfirði um svipað leyti. Á vefnum Blitzortung.org er haldið utan um eldingar á heimsvísu og í kortum þar má sjá eldingar skráðar yfir Egilsstöðum í gærkvöldi.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki algengt að eldingar sjáist á þessum slóðum á þessum árstíma en það gerist.

„Það hefði frekar mátt búast við þeim í kringum Suðausturmið en þarna gengu skil yfir um miðnættið. Þegar þau lenda á fjöllunum eykst uppstreymi og skúraklakkar myndast sem eru nógu öflugir til að framkalla eldingar,“ útskýrir hann.

Veðrabreyting varð í gærkvöldi sem gaf tóninn fyrir það sem koma skal næstu daga. Eftir frekar stöðugt frost síðustu vikur tók hitinn að hækka í gær og var í gærkvöldi orðinn þrjár gráður á Egilstöðum. Spáð er hlýindum með vindi og úrkomu í að minnsta kosti í dag og morgun en áframhaldandi hlýindum eins langt og spár ná.

„Það er er orðið frostlaust upp á fjallatoppa. Það er spáð nokkurri uppsafnaðri úrkomu næstu tvo sólarhringa á Austfjörðum sem getur valdið leysingum. Það er fylgst með því.“
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.