Skip to main content

Síldarvinnslan snéri við flutningaskipi á leið til Odessa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. feb 2022 11:46Uppfært 28. feb 2022 11:46

Gengi bréfa í Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur fallið síðustu daga vegna hernaðarátaka í Úkraínu, sem er mikilvægur markaður loðnu. Vörusending á leið þangað var stöðvuð og skipi snúið viðum leið og fréttir bárust af innrás Rússa.


Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar í morgun.

Þar segir að Úkraína hafi verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Síldarvinnslunnar síðustu ár og þangað sé selt mikið af síld, makríl og loðnu. Undanfarin ár hafi Úkraína keypt um 1/3 frosinna uppsjávarafurða og meira þau ár sem ekki var veidd loðna.

Vegna þessa fylgjast stjórnendur Síldarvinnslunnar náið með þróun mála. Fyrirtækið á útistandandi viðskiptakröfur upp á um níu milljónir dollara, eða meira en 1,1 milljarð króna í landinu. Auk þess eru í geymslum þess loðnubirgðir ætlaðar þangað. Ekki er hægt að áætla hver áhrifin verða af átökunum á reksturinn.

Flutningaskipi með birgðum á leið til Odessa, einnar þeirra borga sem orðið hafa fyrir sprengjuárásum Rússa, var snúið við fyrir helgi og stefnir aftur til Íslands.

Gengi bréfa í Síldarvinnslunni hefur fallið í Kauphöllinni eftir að fréttir bárust af skærum í Úkraínu. Þau hafa hækkað heldur aftur í morgun en voru fyrir helgi komin niður undir 90, sem er það lægsta frá því fyrir loðnuvertíð. Það er þó hátt í samhengi við að gengi bréfanna, þegar þau voru fyrst skráð á markað í byrjun sumars, var rúmlega 60.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar eru stríðsátökin sögð hamtíðindi og hugur Síldarvinnslufólks sé hjá viðskiptavinum í Úkraínu sem og fólkinu öllu þar. „Öll fordæmum við þær gegndarlausu árásir sem úkraínska þjóðin er að verða fyrir.“