Síldarvinnslan kaupir útgerðarfélagið Berg í Eyjum

Síldarvinnslan hefur fest kaup á útgerðarfélaginu Bergi í Vestmannaeyjum í gegnum félag sitt Berg-Huginn ehf. Samningur um kaupinn var undirritaður um síðustu helgi.

Á vefsíðu Síldarvinnslunnar segir að Bergur hefur gert út togarann Berg VE 44 en hann var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998 og hefur verið í eigu fyrirtækisins frá árinu 2005. Togarinn er 569 brúttótonn að stærð og með 1.300 hestafla vél. Aflaheimildir félagsins eru 0,36% af heildarkvóta á fiskveiðiárinu 2020-2021 eða sem nemur 1.514 þorskígildistonnum.

Bergur-Huginn átti fyrir kaupin togarana Vestmannaey og Bergey.

„Rekstur Bergs-Hugins hefur gengið vel. Síðastliðið ár var farið í að endurnýja skip félagsins og eru þessi kaup á Bergi ehf. liður í að styrkja enn stoðir okkar í Vestmannaeyjum,“ segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar um kaupin á vefsíðunni.

"Eigendur Bergs fóru þá leið að bjóða fyrirtækjum í Eyjum að koma að kaupum á félaginu og erum við hjá Bergi-Hugin afar þakklátir fyrir að hafa átt kost á að bjóða í félagið. Bergur-Hugin og Bergur eru tengd félög frá gamalli tíð og það gerir kaupin enn ánægjulegri.

Frá því að Síldarvinnslan kom að rekstri Bergs-Hugins hefur samstarfið við Eyjamenn verið afar gott, starfsmenn Bergs-Hugins hafa tekið okkur vel og við erum með toppfólk í öllum störfum hjá félaginu.“

Mynd: Guðmundur Alfreðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.