Sigurður Ingi: „Þeir sem hafa mestar áhyggjur af drægninni eru þeir sem ekki eiga rafbíl“

Framkvæmdastjóri Orkuseturs segir skammt í að það verði litið á það sem annað en orkusóun að keyra rafbíla. Hann líkir umræðu um hversu langt hægt sé að komast á hleðslunni við að Íslendingar vilji allir vera á bíl til að komast sem lengst í burtu eftir bankarán.


Sigurður Ingi Friðleifsson var meðal frummælenda á málþingi Austurbrúar í gær um rafbílavæðingu á Austurlandi. Hann sagði umræðu um kosti rafbíla mikið hafa snúist um drægni þeirra en vill meina að meira sé gert úr henni sem vandamáli en ástæða sé til.

„Það er eins og séum öll að undirbúa bankarán og viljum vera á flóttabíl þannig við getum komist sem lengst í burtu á sem stystum tíma,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagið menn geta stigið fyrsta skrefið með að kaupa sér tvinnbíl og kynnast þar með kostum rafbílsins. Þá séu í ár að koma á markað bílar sem geti farið allt að 300 kílómetra á einni hleðslu.

Galnir innviðir á Íslandi

Rafbílum hefur fjölgað hratt á Íslandi á fáum árum og eru nú orðnir 6% nýskráðra bíla á landinu. Þeir eru flestir á höfuðborgarsvæðinu þar sem hleðslustöðvum hefur verið komið upp en útlit er fyrir að þeim fjölgi verulega á næstu mánuðum. Þar með verði innviðirnir komnir. „Þetta verður eins og þegar fyrsta innstungan kom fyrir hjólhýsi á tjaldsvæði.“

Sigurður Ingi sagði reyndar óþarf að miða við útbreiðslu bensínstöðva hérlendis í dag sem hann kallaði „galna“. Hann sýndi tölur um að bensínstöðvar í Bretlandi væru nú 8000, fimmtungur af því sem þær voru árið 1970.

Á tímabili þar sem íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 20% fjölgaði bensínstöðvum þar um 50%. Að meðaltali væri ein bensínstöð á hverja 1200 Íslendinga sem væru langt um fram það sem tíðkaðist á öðrum dreifbýlissvæðum, norðurslóðum eða eyjum. „Bensínfyrirtækin eru ekki góðgerðarsamtök. Þið borgið þessa yfirbyggingu.“

Hvað kemstu langt á þúsundkallinum?

Hann sagið of mikinn tíma fara í að ræða drægni sem vandamál. „Þeir sem mestar áhyggjur hafa af henni eiga ekki rafbíl.“

Hægt væri að snúa dæminu við og horfa hve langt rafbíll kæmist fyrir hverjar 1000 krónur miðað við bensínbíl. Í dag kemst rafbíllinn 357 kílómetra meðan bensínbíllinn fer 83 km. Hann fer 143 km með leiðréttingu út af veggjöldum.

Orkusóun að keyra annað en rafbíl

Sigurður Ingi var spurður út í endingu geymanna í rafbílunum og bilanatíðni þeirra en Sigurður ekur um á Akureyri á einum fyrsta rafbílnum sem kom til landsins. Hann sagði að á rafbílunum þyrfti aldrei að skipta um olíu og hann hefði aldrei þurft að skipta um bremsuborða. Þá komi þeir með átta ára ábyrgð.

Sigurður sagði geymana ekki eyðileggjast. Þá væri hægt að endurnýta. Með tímanum þurfi að hlaða þá oftar en krafturinn úr þeim sé sá sami. Rannsóknir sýni betri endingu en menn hafi þorað að vona.

Eins var hann spurður út í kolefnisspor bílanna, hvort framleiðsla batterísins og rafmagnsins í öðrum löndum éti upp þann kolefnissparnað sem verði þegar útblásturinn hverfi. Hann sagði framleiðslu rafbíls álíka mengandi og venjulegs bíls en út af minni útblæstri verði útkoman alltaf rafbílnum í hag.

Rafbíll þarf 20 kílóvattsstundir til að ganga 100 km og koltvísýringurinn er enginn. Bensínbíll sendir á móti 12 kg af koltvísýringi út í andrúmsloftið á sama tíma og brennir 60 kílóvattsstundum. „Í framtíðinni munum við segja að það sé algjör orkusóun að keyra annað en rafbíl.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.