Sigrún Blöndal: Við fáum engin svör

Formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir fá svör hjá þingmönnum þegar þeir séu spurðir út í hvers vegna muni tíu milljörðum á samþykkti samgönguáætlun og fjárlögum. Fleiri landshlutar telji sig svikna.


„Vandinn liggur í að þarna vantar tíu milljarða upp á það sem var samþykkt og samgönguráðherra fær þann kaleik að útdeila því,“ segir Sigrún Blöndal, formaður SSA.

Samgönguáætlunin var samþykkt mótatkvæðalaust þann 12. október, þremur vikum áður en gengið var til kosninga. Fjárlög voru samþykkt milli jóla og nýárs en tíu milljarða vantaði upp á að fjárveitingar í þeim dygðu til þess sem ætlað var að gera í samgöngumálum á þessu ári.

Sú samgönguáætlun var til fjögurra ára, 2015-18 og hafði verið lögð fram nokkrum sinnum á Alþingi en ekki hlotið samþykki. „Þetta kemur illa við menn því loksins var búið að samþykkja áætlun sem lengi hafði verið beðið eftir,“ segir Sigrún.

Ekki hægt að skilja Borgfirðinga eftir með drulluveginn

Á starfssvæði SSA var ætlað að ráðast í endurbætir á Hringveginum í Berufirði og Borgarfjarðarvegi. Þær framkvæmdir eru báðar úti.

„Það er prinsippmál að þjóðvegur 1 sé í boðlegu ástandi. Mönnum er tíðrætt um öryggismál en það hlýtur að vera öryggismál fyrir Austfirðinga að sá vegur þar sem allir þungaflutningar suðurleiðina fara um sé í góðu lagi.

Það er líka óboðlegt fyrir íbúa Borgarfjarðar, sem eru að reyna að byggja upp atvinnu með ferðaþjónustu og fiskflutningum, að þeir séu skildir eftir með þennan drulluveg.“

Kjaftshögg á hverju ári

Sigrún fundaði með nokkrum þingmönnum og óformlega með samgönguráðherra í gær, áður en ákvörðun hans var þá ekki orðin opinber. Sigrún segir að forsvarsmönnum austfirsku sveitastjórnanna hafi verið búið að berast til eyrna hvað í vændum var en lítið hafi verið hægt að ræða það og engin svör fengist hjá þingmönnum.

„Við fáum engin svör nema að það hafi verið ábyrgðarlaust að samþykkja samgönguáætlun. Það greiðir enginn atkvæði gegn henni svo ég lít svo á að hún sé samþykkt samhljóða. Ég held að þetta sé ekkert óvart, þingmenn vita sínu viti. Hún er afgreidd til að stinga upp í okkur þannig við hættum þessu þrefi.“

Austfirðingar eru ekki þeir einu sem eru ósáttir. Eyfirðingar fá ekki nýtt flughlað á Akureyrarflugvellir og miklar vegaframkvæmdir eru skornar af Vestfirðingum.

„Þeir sitja eftir í sárum. Meðan ekki er sett hærra hlutfall af landsframleiðslunni í samgöngumál þá eru þau vanfjármagnað verkefni og við fáum kjaftshögg á hverju einasta ári.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.