Sigrún Blöndal: Gremst hvað við erum miklir ræflar að verja okkur ekki harðar

sigrun_blondal_2010.jpg

Umræðan um hnignun lífríkis í Lagarfljóti hefur verið keyrð áfram til að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á öðrum landssvæðum, oft á tíðum með kolröngum staðhæfingum. Bæjarfulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs gagnrýnir meirihlutann fyrir að hafa ekki tekið til varna fyrir svæðið í neikvæðri fjölmiðlaumræðu.

 

„Mér finnst þið ekki hafa staðið upp okkur til varnar þegar komið hefur blaðagrein eftir blaðgrein þar sem talað er um dautt Lagarfljót, dautt mannlíf og tuttugu tómar blokkir með myglusveppi. Hvað höfum við gert til að svara þessum fullyrðingum um hvernig ástandið er hér?“ spurði Sigrún Blöndal, Héraðslistanum, á fundi bæjarstjórnar fyrir stuttu.

Sigrún sagði að þótt lífríkið í Lagarfljóti hefði hnignað, eins og ráð var fyrir gert fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar, hafi mannlífið eflst.

„Að halda að mannlífið hér sé í eymd og volæði finnst mér ekki sanngjarnt. Vissulega eru færri fiskar í Lagarfljótinu en það eru líka möguleikar fyrir ungt fólk sem hafði farið í burtu til að mennta sig að snúa aftur austur og finna störf við hæfi. Ákveðnum hlutum var fórnað en við höfum ákveðna hluti í staðinn.“

Logið á okkar kostnað

Sigrún sagði mikil rangindi í umræðunni og hún væri keyrð áfram til að koma í veg fyrir framkvæmdir annars staðar á landinu. „Menn skrifa að hér sé tóm eymd og volæði og myglusveppur í hverju húsi. Hvernig leyfa menn sér svona ósannindi? 

Það er logið á okkar kostnað til að ná niðurstöðu í önnur mál þar sem fólk er mögulega að berjast gegn bættum búsetuskilyrðum. Það er fólk sem barðist virkjunarframkvæmdum hér og ætlar nú að stökkva fram til að berjast gegn öðrum framkvæmdum.

Mér gremst hvað við erum ofboðslega miklir ræflar að verja okkur ekki harðar. Mér finnst umræðan ósanngjörn gagnvart íbúum þessa landshluta. Ég vonast til að í fréttunum í kvöld komi myndbrot þar sem sýnd eru hamingjusöm börn í leikskóla á Fljótsdalshéraði að syngja um hamingjuna.“

Krefur Landsvirkjun um aðgerðir

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, lagði áherslu á að Landsvirkjun legði fram aðgerðir til að vernda náttúruna fyrir neikvæðum áhrifum virkjunarinnar.

„Það er líka ákveðinn aumingjaskapur ef við ætlum að liggja undir því að lífríkið okkar, bakkarnir okkar, náttúran okkar sé stórskemmd án þess að við ætlum að gera nokkuð í því. 

Ég veit mætavæl að þessar framkvæmdir höfðu neikvæð áhrif með sér í för og ég studdi þær en við getum ekki horft framhjá áhrifunum. Þess vegna á Landsvirkjun að koma að borðinu og við að taka á þeim til að efla mannlíf.“

Umræðan vinnst ekki á gífuryrðum

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, hvatti menn til að halda ró sinni. Umræðan um ímynd sveitarfélagsins ynnist ekki með gífuryrðum heldur þolinmæði og því að horfa til langtíma. Hann sagði varlegt að gefa aðilum sem væru að tjá sig um hluti sem þeir hefðu ekkert vit á sess í umræðunni.

„Umræðan hefur verið neikvæð og menn geta lent í því en það er ekkert við því að gera nema reyna bæta fyrir hana á lengri tíma. Við verðum að halda okkar stefnu og halda áfram að sýna hversu gott mannlíf og fallega náttúru við höfum. Hvað við höfum að bjóða nýjum íbúum, fjárfestum og öðrum.“

Fréttablaðið hefur hafnað landsbyggðinni

Stefán Bogi gagnrýndi sérstaklega Fréttablaðsins fyrir hvernig blaðið hefði leitt umræðuna. „Hvar fer þessi umræða fram? Hvar hafa greinarnar birst? Í Fréttablaðinu sem er svo langt frá því að vera blað allra landsmanna. 

Það hefur hagnað landsbyggðinni. Forsvarsmenn þess kæra sig ekki um að dreifa því hér. Fyrir vikið fer umræðan fyrir ofan garð og neðan. Það er verið að ræða um okkur í öðru herbergi.

Ef ritstjórarnir hefðu raunverulegan áhuga á landsbyggðinni ættu þeir að fara að sinna henni og dreifa blaðinu þar. Þetta virkar eins og þeir sitji í turni og horfi niður á fólkið. Eiginlega hefur allur fréttaflutningurinn virkað þannig.“

Karl S. Lauritzson, Sjálfstæðisflokki, notaði tækifærið við umræðuna til að skora á bæjarstjórnina að afhenda Hirti Kjerúlf verðlaun fyrir myndband af Lagarfljótsorminum. Með því hefði hann sýnt fram á tilvist ormsins og lífríki fljótsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.