Sérfræðingar eyddu kassa með sprengiefni á Teigarhorni

Sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni eyddu á miðvikudag kassa með sprengiefni sem virðist hafa rekið upp á land Teigarhorns í Berufirði. Ekki er talið að hætta hafi verið á ferðum en aldrei sé of varlega farið þegar sprengiefni er á ferðinni.

Það var fyrri part miðvikudags sem landvörður á Teigarhorni fann þar járnkassa sem merktur var sem sprengiefni. Landhelgisgæslunni var tilkynnt um fundinn og komu sprengjusérfræðingar hennar á staðinn síðar um daginn.

„Miðað við merkingar þótti öruggast að mæta á svæðið. Kassinn var merktur þannig að í honum væru hernaðarblys. Þau innihalda fosfórefni sem er sjálfíkveikjuefni þannig að ef efnið er ekki réttu ásigkomulagi getur kviknað í því,“ segir Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá gæslunni.

„Við opnuðum kassann úr fjarlægð og þá kom í ljós að það voru leifar af blysum í kassanum. Við eyddum þeim á öruggu svæði sem okkur var bent á í landi Teigarhorns.“

Ekki er ljóst hvernig sprengiefnið komst til Teigarhorns, en Ásgeir segir kassann hafa borið þess merki að hann hafi velkst í sjónum um allnokkra hríð. Trúlega hafi hann rekið á land eftir að hafa fallið í sjóinn af skipi.

Ekki er heldur ljóst hvaðan efnið kemur. Til séu blys sem seld hafi verið af bandaríska varnarliðinu hérlendis en þar sem kassinn sem fannst á Teigarhorni sé stimplaður með ártalinu „2017“ sé útilokað að hann sé þaðan kominn.

Ásgeir segir að ekki hafi verið hætta á ferðum á Teigarhorni en aldrei sé of varlega farið þegar sprengiefni sé annars vegar. „Það má hrósa þeim sem fann kassann fyrir að hafa brugðist rétt við með að opna hann ekki heldur kalla strax á aðstoð.“

Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á ferð með kassann. Mynd: Andrés Skúlason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.