Segja ráðherra og Vegagerðina misnota aðstöðu sína

oddskard_varud_skilti.jpgÞrýstihópur um gerð Norðfjarðarganga skorar á að gerð verð óháð úttekt um ástand Norðfjarðarganga. Hópurinn segir Vegagerðina senda saklausa verkamenn sína í skjóli nætur til að fjarlægja laust grjót úr göngunum. Hópurinn sakar ráðherra og Vegagerðina um að misnota aðstöðu sína í umræðunni.

 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu hópsins sem Agl.is barst í dag. Yfirlýsingin er svar við skrifum Ögmundar Jónassonar á heimasíðu sína í vikunni og fréttum á vef Vegagerðarinnar þar sem gagnrýnt er að birt hafi verið mynd á Facebook-síðu hópsins af grjóti sem ranglega var hermt að fallið hefði úr göngunum.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Það  hefur verið mikið um útskýringar Vegagerðarinnar og nú á bloggsíðu Ögmundar Jónassonar að netin í loftunum eigi að taka steinana og þeir eigi svo að rúlla niður til hliðanna. Það þýðir samt ekki að netið taki allt grjótið. Við höfum ekki eingöngu verið að tala um grjóthrun úr lofti ganganna eins og vegagerðin og Ögmundur nefna alltaf. Við höfum verið að tala um að berglos eða grjóthrun sé til  staðar og að það geti fallið í veg fyrir bíla og hversu lengi geti hrunið og molnað úr veggjum áður en þakið fari að gefa sig?

Þau sem tóku myndina sem er í bloggi Ögmundar eru búin að gera grein fyrir máli sínu, það er afgreitt af þeirra hálfu. Það var byggt á misskilningi að þeirra sögn. Það er ekki bara Norðfjarðaganga hópurinn sem skrifar og birtir myndir á síðunni.

Af hverju hefur Ögmundur allt í einu ástæðu núna til að tjá sig um málið þegar þetta unga fólk tekur myndir í göngunum af þessu stóra grjóti sem var í kantinum. Hingað til hefur hann ekki viljað tjá sig um staðreyndir málsins en reynir nú að nota sér þessa mynd til þess að gera lítið úr hinu óásættanlega ástandi Oddsskarðsganga og vegunum beggja vegna.

Þetta er bara lýsandi um vinnubrögð að misnota aðstöðu sína. Innanríkisráðherra og Vegagerðin hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum en það hafa ekki aðrir. Heiðarlegir menn hefðu komið því á framfæri að búið væri að leiðrétta misskilninginn sem kom upp. En í stað þess að vera heiðursmenn þá var misskilningurinn mjólkaður af þeirra hálfu. Það virkar ekki á okkur!

Af hálfu Norðfjarðagangahópsins hefur aldrei verið neinn hræðsluáróður í gangi heldur bara hreinar og beinar staðreyndir settar fram.

En þegar saklausir verkamenn Vegagerðarinnar eru sendir í skjóli nætur að fjarlægja grjót þá kallast það skortur á virðingu við almenning. Það kallast að hylma yfir ástandinu, það kallast  að fela hlutina. Það kallast að setja á svið að allt sé í lagi.

Við höfum birt ótal myndir og staðreyndir af ástandinu og það hafa líka aðrir gert sem eru að skrifa á síðunni.

Við höfum þrýst mikið á að skýrslan sem er reyndar minnisblað varðandi úttektina á göngunum í ágúst yrði lögð fram. Nú hefur hún loks verið sett á vefsíðu vegagerðarinnar en hengd við gamla frétt.

Við skorum á Vegagerðina að  birta minnisblaðið á meira áberandi stað. Til dæmis á forsíðu sinni í stað þess að hengja hana bara á gamla frétt! Eða á að halda áfram að laumupokast hvað varðar göngin. Er eðlilegt að verkfræðistofa sem er í vinnu fyrir Vegagerðina geri skýrslu um göngin? Við förum fram á óháða úttekt.

Ef hægt er að greiða tugi milljarða í atvinnuleysisbætur þá er hægt að fara í framkvæmdir sem skila sér svo aftur í formi skatttekna til ríkisins. Við bendum ríkisstjórninni á að ferköntuð hjól þeirra snúast ekki. Aftur á móti eru þau hringlaga hjól sem atvinnurekendur hafa verið að benda á þau hjól sem virka. Látum þau fara að snúast.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.