Segir þingmenn halda því fram að óábyrgt hafi verið að greiða atkvæði með samgönguáætlun

Engar endurbætur verða á Borgarfjarðarvegi í ár þótt ákveðið hafi verið að ráðast í þær á samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti í haust. Oddviti Borgarfjarðarhrepps segist hafa orðið vondur þegar hann frétti af því að ekki yrði staðið við það.


„Ég varð fjúkandi reiður þegar ég komst að þessu í gærkvöldi,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps sem einnig situr í samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Áætlað er að framkvæmdir við veginn til Borgarfjarðar kosti um milljarð króna og átti að byrja á honum í ár. Af því verður ekki. Framkvæmdin er meðal þeirra sem fórnað er því tíu milljarða vantar á milli samþykktar samgönguáætlunar frá miðjum október til fjárlaga í lok árs.

„Það er ekki innistæða fyrir því sem samþykkt var. Það hefur verið talað um að það hafi verið óábyrgt að samþykkja áætlunina án þess að til færi fjármagn í hana en ég segi bara að það sé líka óábyrgt að standa ekki við áætlunina.“

Hverjir hafa sagt það?
„Það hefur komið frá einhverjum þingmönnum.“

Sem samþykktu samgönguáætlun?
„Já, þeir voru að minnsta kosti á þingi í haust.“

Þingmenn Norðausturkjördæmis?
„Já, reyndar.“

Hverjir?
„Ég ætla ekki að nefna nöfn í því sambandi.“

Of litlu varið til vegamála almennt

Jakob gagnrýnir að almennt sé of litlu fjármagni varið til vegaframkvæmda. Hlutfall vergrar landsframleiðslu til vegamála hafi lækkað úr 2% í 1%. „Mér skilst að aðrar þjóðir setji 3% í að reka heri. Við gerum það ekki en hví notum við ekki það hlutfall í að byggja upp innviðina í staðinn?“

Hann er enn fremur ósáttur við að fjármagn til sérverkefna eins og nýrrar Vestmannaeyjaferju og jarðganga við Bakka sé tekið af almennu vegafé. „Það væri hægt að gera heilmikið fyrir þessa fjármuni. Það er algjört skilyrði að Alþingi tryggi að meiru fé verði varið til vegaframkvæmda.“

Þá tekur Jakob undir gagnrýni fleiri austfirskra sveitarstjórnarmanna á Dettifossveg. „Sá vegur er fyrir ferðamenn en ekki fyrir íbúana.“

Ekki hægt að taka þessu þegjandi

Borgarfjarðarvegur er hins vegar eina vegtenging íbúa í Borgarfjarðarhreppi við næstu sveitarfélög. „Þetta er malarvegur og á hluta hans eru miklir þungaflutningar þannig hann er orðinn mjög lélegur. Það er eins með vegina og íbúðarhúsnæði, ef það er ekkert gert fyrir það þá þarf að hreinsa alveg út úr því þegar farið er í viðgerðir.“

En vegurinn yfir Vatnsskarð hefur einnig mátt þola aukna umferð. „Milli áranna 2015 og 2016 varð 24% aukning á umferð þar. Ætli það væri ekki farið í að laga veginn ef hann væri einhvers staðar annars staðar á landinu. Mér finnst þetta gjörsamlega óásættanlegt.“

En þetta snýst ekki bara Borgarfjarðarveginn. „Það er skorið niður á starfssvæði SSA eina ferðina enn. Fjórða árið í röð er ekkert sett í nýframkvæmdir á svæðinu.“

Hann segist ekki hafa heyrt í þingmönnum kjördæmisins eftir að tíðindin bárust í gærkvöldi. „Við á Borgarfirði höfum ekki ákveðið nein viðbrögð en ég ætla að fara af stað sjálfur. Ég get ekki tekið þessu þegjandi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.