Segir meirihlutann hafa skapað storm í vatnsglasi í ráðningarmáli bæjarstjóra

Oddviti minnihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segir meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista hafa brugðist of harkalega við vegna athugasemdar hans til innviðaráðuneytisins vegna aðkomu bæjarstjórans sem kjörins fulltrúa að eigin ráðningu. Talsfólk meirihlutans segja minnihlutann vera að setja á svið pólitískan leikþátt.

Snörp umræða varð á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Þar var tekin fyrir síðasta fundargerð bæjarráðs en hún innihélt bókun meirihlutans við bréfi innanríkisráðuneytisins. Með bréfinu var óskað eftir afstöðu Fjarðabyggðar og gögnum varðandi álitamál um hvort kjörnum fulltrúum sé heimilt að taka til máls og greiða atkvæði með ráðningarsamningi sem viðkomandi er aðili að.

Í erindinu segir að ráðuneytinu hafi borist erindi um afgreiðslu sveitarstjórnar á ráðningarsamningi bæjarstjórans, Jóns Björns Hákonarsonar oddvita Framsóknar og litið sé svo á að um sé að ræða „ábendingu/kvörtun á stjórnsýslu Fjarðabyggðar.“

Erindið til ráðuneytisins var sent af Ragnari Sigurðssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í byrjun ágúst. Í því rekur Ragnar að bæjarstjórn hafi á fyrsta fundi sínum, sem haldinn var í byrjun júní, samþykkt að ráða Jón Björn áfram sem bæjarstjóra en ekki gengið frá ráðningarsamningi. Samningurinn var staðfestur á öðrum fundi bæjarstjórnar tveimur vikum síðar að undangenginni umfjöllun í bæjarráði.

Athugasemd við að skilið sé milli ákvörðunar og samnings

Ragnar ritar að hann efist ekki um að fulltrúa sé heimilt að greiða atkvæði um skipan í stöður eða ákvarða þóknun en hann telji slíkt ekki eiga við í þessu tilfelli þar sem aðeins sé verið að greiða atkvæði um efni ráðningarsamningsins. Að hans mati eigi þar vanhæfissjónarmið við þegar bæjarstjóri og kjörinn fulltrúi sé farinn að taka þátt í afgreiðslu eigin ráðningarsamning.

Ragnar segist þar leggja fram kvörtun/ábendingu til að kalla eftir skýru verklagi í þessum efnum. Hann óskar eftir að ráðuneytið gefi það út en segist að svo stöddu ekki ætla að kæra málið annað. Austurfrétt fékk erindið afhent eftir beiðni til ráðuneytisins sem leitaði þó staðfestingar Ragnars áður en hann skrifar undir bréfið í eigin nafni.

Rétt er að halda því til haga að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá þegar ráðningarsamningur Jóns Björns var staðfestur af bæjarstjórn þann 16. júní síðastliðinn. Í umræðum undir þeim lið á fundinum gerði Ragnar þó ekki athugasemdir við hæfi Jóns Björns til að taka þátt í umræðunum heldur gagnrýndi ákvæði um biðlaun í samningnum. Þá greiddu fulltrúarnir atkvæði gegn ráðningunni á fyrsta fundi bæjarstjórnar á þeim forsendum að þeir vildu ráða bæjarstjóra á faglegum forsendum. Þeir gerðu einnig athugasemd við að þá hefði ráðningarsamningur ekki legið fyrir.

Lögmaður telur kjörna fulltrúa skylduga til að taka ábyrgð á kjörum sínum

Fyrir bæjarráði fyrir viku lá aðeins bréf ráðuneytisins og var þar ekki fram hvaðan kvörtunin hefði borist. Fulltrúar meirihlutans brugðust hins vegar hart við. Í bókun lýsa þeir furðu sinni á erindinu sem þeim virðist boða frumkvæðisathugun á ráðningunni með hliðsjón af vanhæfi. Vekur það sérstaka óánægju að sú athugun virðist byggð á „nafnlausri ábendingu.“

Fyrir þeim fundi lágu drög að svari sveitarfélagsins sem Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn, tók saman. Bendir hann þar á að í greinargerð með sveitarstjórnarlögum sé starf framkvæmdastjóra skilgreint sem pólitískt trúnaðarstarf gagnvart sveitarstjórn og henni því heimilt að byggja á pólitískum sjónarmiðum við ráðninguna. Þá sé í lögunum sérstaklega tekið fram að sveitarstjórnarfulltrúar séu ekki vanhæfir þegar verið sé að velja fulltrúa til starfa fyrir sveitarstjórn eða ákveða þóknun þeirra.

Álit lögmannsins er að beinlínis sé órökrétt að gera sveitarstjórnarfulltrúa ábyrgðarlausan af eftirmálm ráðningarinnar, það er launakjörum. Þá verði að hafa í huga að engir kjarasamningar ráði yfir framkvæmdastjóra heldur beri sveitarstjórnir ríka pólitíska ábyrgð vegna þessara ákvarðana, eins og skýrlega hafi komið fram í umræðu að undanförnu.

Réttara að fara í almenna athugun

Því sé út frá sjónarmiðum um pólitíska ábyrgð rétt að sveitarstjórnarfulltrúi, sem jafnframt er ráðinn sveitarstjóri, standi að afgreiðslu ráðningarsamnings. Viðkomandi hafi þegar komið að ákvörðuninni, til dæmis við gerð meirihlutasamkomulags þar sem hin raunverulega ákvörðun um pólitísku ráðninguna, sé tekin. Þess vegna sé órökrétt að fulltrúinn víki af fundi við umfjöllunina.

Lögmaðurinn tekur fram að honum þyki álitaefnið sem til umfjöllunar sé áhugavert. Hins vegar sé rökréttara fyrir ráðuneytið, telji það rétt að skoða þessi mál, að taka almennt til skoðunar pólitískar ráðningar sveitastjóra frekar en einskorða athugun sína við Fjarðabyggð.

Undir þetta er tekið í bókun meirihlutans þar sem segir að slík athugun hljóti þá að leiða til endurskoðunar á hæfisákvæðum sveitarstjórnarlaga. Þeir telja lögin í dag þó skýr og vonast til að niðurstaða fáist sem fyrst þannig „sem ábendinguna sendi inn til þess geti verið fullviss um að farið hafi verið eftir lögum við ráðningu bæjarstjóra í Fjarðabyggð“ enda væri það væntanlega tilgangurinn frekar en pólitískur leikþáttur.

Persónulegar deilur og pólitískur leikþáttur eða einskær áhugi á stjórnsýslulögum?

Á bæjarstjórnarfundinum í síðustu viku sagði Ragnar að bókun meirihlutans hefði komið honum á óvart og hann teldi hana tilhæfulausa og hrokafulla. Hann sagði hrokann felast í því að gefa til kynna að hægt sé að fá embættisfólk ráðuneytisins til að taka þátt í pólitískum leikþætti. „Ég gef mér að það sé ekki að kalla eftir upplýsingum að gamni sínu. Þetta er vandað fólk sem þekkir vel til stjórnsýslulaganna. Það ber að sýna því meiri virðingu en dylgja um að það sé að taka þátt í pólitískum leikþætti.“

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sem skipaði annað sæti lista Framsóknar, var hins vegar ekki hrifin. „Það hefði verið í lagi að ræða málið hér innanborðs fyrst. Það lítur ekki vel út þegar innviðaráðuneytið kemur. Mér finnst þetta pólitískur leikþáttur og veit ekki hverju það á að skila eða hverju Sjálfstæðisflokkurinn vill ná fram. Ef flokkurinn ætlar að verja næstu fjórum árum í persónulegar deilur þá komast fá önnur mál áfram. Ég vona að þetta verði ekki langdregið mál.“

Ragnar sagðist um margt geta tekið undir það sem fram kæmi í áliti lögmannsins en bætti við að það tæki ekki fyllilega á því atriði sem hann hefði viljað fá álit á. Þess vegna breytti það litlu. Hann sagði að fyrri sér hefði fyrst og fremst vakað áhugi á lögum, einkum stjórnsýslulögum.

„Þarna kemur upp álitamál sem mér fannst forvitnilegt að fá úr því skorið hvort hafið væri yfir ágreining. Það snýst bara um sveitarstjórnarlögin og kemur engum persónum við. Þarna vaknar álitamál og því er lögð fram ábending, ekki kæra.

Nú kann að vera að ráðuneytið álykti svo að lögin nái yfir þetta og þá er það vel. Þá hefur verið skerpt á verklaginu. Ef ekki þá þarf að setja annað verklag, jafnvel breyta lögum. Það er gott fyrir okkur og sveitarfélögin í landinu að við séum hér að reyna að iðka vandaða stjórnsýslu.

Meirihlutinn hefur gert storm í vatnsglasi með bókun sinni. Bókunin getur ekki annað en vakið athygli og er ekki góð gagnvart ímynd sveitarfélagsins,“ sagði hann.

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, hafnaði því að viðbrögðin væru tilhæfulaus þar sem ráðuneytið hefði beinlínis tekið fyrir vinnubrögð Fjarðabyggðar. Bæði hann og Hjördís Helga Seljan, sem skipaði annað sæti listans, sögðust sannfærð eftir lestur lögfræðiálitsins að rétt hefði verið staðið að ráðningunni.

Í erindi ráðuneytisins kemur fram að Fjarðabyggð hafi frest til fimmtudags til að bregðast við, skila inn afstöðu og gögnum um málið. Eftir það muni ráðuneytið taka afstöðu til málsins.

Ýmsar aðferðir við ráðningu sveitarstjóra

Samkvæmt svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar hefur það ekki slík erindi til skoðunar úr öðrum sveitarfélögum. Austurfrétt hefur athugað hvernig málum var háttað í nokkrum sveitarfélögum þar sem kjörinn fulltrúi var eftir sveitarstjórnarkosningar í vor ráðinn sem framkvæmdastjóri.

Í Garðabæ og í Hafnarfirði var verklag með sama hætti og í Fjarðabyggð, ákvörðun um ráðningu tekin á einum fundi og ráðningarsamningur staðfestur á öðrum. Bæjarstjórarnir tóku þar fullan þátt á báðum fundum. Í Hafnarfirði sat bæjarstjóri fund bæjarráðs þar sem ráðningarsamningur var tekinn fyrir sem varamaður og síðar fund bæjarstjórnar þar sem samningurinn var staðfestur.

Í Vestmannaeyjum og í Kópavogi var ráðning og samningur afgreitt í einu lagi. Bæjarstjóri sem kjörinn fulltrúi tók í báðum tilfellum þátt í afgreiðslunni. Á Seltjarnarnesi var skili milli ráðningar og samnings. Bæjarstjóri sem kjörinn fulltrúi tók þátt í ráðningunni en vék af fundi við afgreiðslu samningsins. Í Árborg var ráðning og samningur aðskilin. Þar vék verðandi bæjarstjóri af fundi í bæði skiptin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.