Skip to main content

Samruni Fiskeldis Austfjarða og Laxa staðfestur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. maí 2022 16:13Uppfært 30. maí 2022 17:16

Ice Fish Farm AS, móðurfélag Fiskeldis Austfjarða, gekk í dag endanlega frá kaupum á Löxum fiskeldi. Eignarhald á fiskeldi á Austfjörðum er þar með komið undir einn hatt.


Ferlið hefur verið í gangi í allnokkurn tíma en var staðfest á sérstökum aukafundi Ice Fish Farm í morgun. Þar með er lokið ferli sem hófst um miðjan desember þegar upphaflega var tilkynnt um kaupin. Ferlið á sér þó lengri aðdraganda, í desember 2020 keypti Måsøval Eiendom AS, norskt móðurfélag Laxa fiskeldis meirihluta í Ice Fish Farm. Samkvæmt fundargerð frá í dag var fundurinn haldinn í höfuðstöðvum Måsøval fiskeldis á eyjunni Frøya.

Kaupverðið er er tæpir 1,36 milljarðar norskra króna eða um 18,5 milljarðar íslenskra samkvæmt tilkynningu sem send var Kauphöllinni í Osló eftir fundinn en Ice Fish Farm er skráð þar á markað.

Með kaupunum eignast Ice Fish Farm allt hlutafé í Löxum og 33% í Búlandstindi ehf., sem rekur laxasláturhús á Djúpavogi. Greitt er fyrir hlutinn með hlutafé í Ice Fish Farm. Það er gert með að auka hlutafé Ice Fish Farm um rúmar 3,75 milljónir norskra króna, úr 5,4 milljónum í 9,15. Eiga fyrrum hluthafar Laxa eignahaldsfélags ehf. því rétt til arðgreiðslna frá Ice Fish Farm í hlutfalli við þetta eða um 41%. Út frá þessu má álykta að heildarverðmæti félagsins sé yfir 45 milljarðar íslenskra króna.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri og Aðalsteinn Ingólfsson, stjórnarformaður, skrifa undir fyrir hönd Laxa en Martin Lein Staveli stjórnarformaður og Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri, fyrir hönd Ice Fish Farm. Undir samþykktir hins nýja félags skrifa Martin, Guðmundur, Roar Myhre, Einar Þór Sverrisson og Anders Måsøval.

Í tilkynningunni segir að talsverð samlegð sé fyrir hendi með samrunanum. Fjölbreytni framleiðslu Ice Fish Farm aukist töluvert með alls fimmtán eldisstöðvum í fjórum fjörðum með leyfi upp á 43.800 tonna eldi og umsókn um 10 þúsund í viðbót. Vænst er þess að stærðin skapi fyrirtækinu betri stöðu í samningum við birgja og lækki kostnað á hvert kílógramm í framleiðslu.

Þá er einnig komið inn á að fyrirtækið eigi öflugar seiðaeldisstöðvar og þess sé vænst að þegar fram líður verði seiðin orðin stærri en nú þegar þau eru sett út í sjó. Það á að stytta tímann sem þau eru þar og auka framleiðsluna. „Markmiðið er að reka sjálfbært og ábatasamt laxeldi,“ segir í lok tilkynningarinnar.

Laxar hafa verið með fiskeldi í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði en Fiskeldi Austfjarða í Berufirði. Á Reyðarfirði og í Berufirði hefur á stuttum tíma orðið mikið tjón á framleiðslunni vegna ISA-veiru sem veldur sjúkdóminum blóðþorra í laxi. Fyrirtækin eru einnig að afla leyfa til eldis í Stöðvarfirði og Seyðisfirði. Tilraunir Austurfréttar til að hafa tal af forsvarsmönnum laxeldisins vegna útbreiðslu veirunnar hafa ekki borið árangur.

Mynd: Laxar fiskeldi