Samgönguráðherra: Viljum að flugið verði raunhæfari kostur fyrir fólk sem á lengra að sækja

Samgönguráðherra skipar á næstu dögum starfshóp sem ætlað er að fjalla um málefni innanlandsflugs með það að markmiði að gera flugið ódýrara fyrir neytendur, meðal annars hvort það verði skilgreint sem almenningssamgöngur. Hin svonefnda skoska leið verður tekin til sérstakrar umfjöllunar innan hópsins.


„Ég ber miklar væntingar til vinnu hópsins og að við getum séð fram á nýja tíma í þessum mikilvæga þætti samgangna okkar,“ sagði Jón þegar hann tilkynnti um hópinn við opnun nýrrar flugbrautar á Norðfirði í gær.

Starfshópurinn tekur til starfa upp úr næstu mánaðarmótum. Skipan hans hefur ekki verið endanlega verið staðfest og vildi Jón því ekki gefa upp nöfn þeirra sem sæti munu í honum. „Þarna verður fólk með þekkingu og reynslu af þessu sviði, sem og fólk utan af landi sem þekkir aðstæður þar vel,“ sagði Jón í samtali við Austurfrétt.

Skotar hafa í rúman áratug verið með kerfi þar sem íbúar dreifðari byggða fá 40-50% afslátt af grunnfargjaldi flugfélaga. Afslátturinn miðast við þá sem eiga lögheimili á viðkomandi svæðum og er miðað við að svæðinu séu það fjarri að óraunhæft sé að nýta aðra samgöngumáta með tilliti til tíma.

„Það hafa margir vitnað til skosku leiðarinnar og eitt af verkefnum starfshópsins verður að skoða hana,“ sagði Jón.

„Vitum að það er dýrt að fljúga“

Á svipuðum forsendum hefur verið þrýstingur á að innanlandsflugið verði skilgreint sem almenningssamgöngur. Í dag er það svo að flug til annarra áfangastaða en Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar er ríkisstyrkt.

„Við vitum að það er dýrt að fljúga og ekki raunhæfur kostur fyrir 4-5 manna fjölskyldu eða hjón. Við viljum að flugið verði raunhæfari kostur fyrir fólk sem á lengra að sækja.

Við teljum að það geti falist í því verulegur ávinningur fyrir bæði flugreksturinn í landinu og ekki síst íbúa svæðanna, ef við getum leitað til nágrannaþjóða okkar sem búa við sambærileg skilyrði og fundið fyrirkomulag þannig að flugið verið hluti af okkar almenningssamgangakerfi.“

Skoða rekstur flugvallanna

En starfshópurinn skoðar ekki eingöngu flugfargjöldin sjálf heldur einnig rekstur flugvalla á Íslandi. Jón segir athugandi að taka það fé sem varið er í viðhald vallanna frekar í flugið sjálft.

„Við höfum fordæmi hér á Norðfirði um flugvöll sem er að ganga í endurnýjun lífdaga með því að sveitafélög og fyrirtæki taka höndum saman um að völlurinn verði miklu öflugri en áður. Hann skapar bæði öryggi en hér opnast einnig möguleiki á annars konar flugi sem tengist ferðaþjónustu eða öðru,

Það verður skoðað í starfshópnum hvort hægt sé að samþætta þessa starfsemi meira rekstri sveitarfélaga. Við höfum fundið fyrir áhuga á því á fleiri stöðum að sveitarfélög vilja koma að því að taka yfir rekstur flugvalla. Slík dæmi eru til skoðunar á ákveðnum stöðum á landinu. Í þessu fordæmi geta falist tækifæri fyrir okkur og landsbyggðina.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.