Sameiginlegur hádegismatur á Seyðisfirði

Á föstudaginn síðasta var fyrirkomulagi á mötuneyti Seyðisfjaðarskóla breytt. Skólinn, Hótel Aldan, félagsheimilið Herðubreið og LungA skólinn vinna saman að því að bjóða nemendum og íbúum upp á hádegismat  í Herðubreið.

 

Hótel Aldan mun sjá um að elda hádegismat fyrir leik og grunnskólanemendur, nemendur Lungaskólans og íbúa Seyðisfjarðar, þá sem vilja, í húsnæði Herðubreiðar. 

Þessi breyting kemur reyndar ekki til að góðu. Einn starfsmaður skólans veiktist og varð sveitafélagið því að finna nýja leið til að elda ofan í börnin því þau þurfa að borða. „Upp kom þessi hugmynd að sameina krafta okkar hérna á staðnum. Þetta er búið að vera draumur margra hérna í bænum að prófa þetta,“ segir Svandís Egilsdóttir skólastjóri Seyðisfjarðaskóla.

Það vildi svo til að Svandís hefur reynslu að svipuðu fyrirkomulagi. „Við gerðum svipaða hluti í Borgarfirði þegar ég var skólastjóri þar. Þar voru fáir í mötuneytinu og margir eldriborgar sem borðuðu bara heima hjá sér. Mötuneyti skólans bauð því eldriborgurum upp á heitan mat í hádeginu og þannig borðuðu ungir sem aldnir saman,“ útskýrir Svandís. 

Ákveðið var að prufa þetta fram að jólum. Nú eru bara komnir þrír dagar en að sögn Svandísar hefur þetta farið vel af stað og stemningin hefur verið frábær. „Það er mikið líf í húsinu. Það er frábært að félagsheimilið okkar virki sem félagsheimili. Í dag sat til dæmis nemandi með foreldrum sínum sem nýttu sér þessa þjónustu,“ bætir hún við.

Þetta fyrirkomulag getur þó reynst erfitt í framkvæmd í stærri bæjarfélögum út af samkeppnisjónarmiðum. „Sveitafélagið ætlaði ekkert að fara í samkeppni við aðra veitingastaði í bænum og við gátum ekki gert þetta eða sett þetta í forgang hjá okkur. 

En það er í eiginlega bara einn veitingastaður hér sem er í eigu annarra og þau hafa ekki haft opið yfir vetrartímann þannig að við gátum farið út í þetta. Við erum ekki í samkeppni við neinn,“ segir Svandís

Hún segir að ef þau vildu gera þessa breytingu varanlega þá færi þetta í útboð og bærinn myndi leita tilboða og yrði þá bara í eðlilegri samkeppni.

„Þetta er rosalega spennandi því það er gott að vera í svona litlum bæ og finna fyrir því að það sé svona mikið líf og við erum að nota krafta. Þetta gerir okkur að fallegra samfélagi,“ segir Svandís að lokum. 

 

 

Seyðisfjörður. Mynd úr safni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.