Salthúsmarkaðurinn lokar og Notó opnar

Á laugardaginn er síðasti opnunardagur sumarsins í Salthúsmarkaðnum á Stöðvarfirði þar sem heimamenn selja fjölbreytt handverk. Þann 6. október verður hins vegar fyrsti opnunardagur vetrarins í nytjamarkaðnum Notó á Djúpavogi sem foreldrafélagið á staðnum heldur utan um sem fjáröflun fyrir félagið.


„Síðasti opnunardagurinn er á laugardaginn og eftir það pökkum við saman fyrir veturinn,“ segir Guðný Kristjánsdóttir, talsmaður Salthúsmarkaðarins á Stöðvarfirði. Á markaðnum er meðal annars að finna prjónavörur, vörur úr gleri, leir, hornum og beinum að ógleymdu jólahorninu.

Guðný segir að sumarið hafi gengið mjög vel aðstandendur hafi ekki upplifað að ferðamannastraumurinn hafi dregist saman milli ára. Hvað skyldi hafa verið vinsælast í sumar? „Það var ekkert vinsælla en annað. Það er alveg ómögulegt fyrir okkar að reikna út hvað fari mest það árið og við reynum að fylla á eftir því sem okkur er unnt.“

Nú tekur við annað tímabil hjá þeim sem að markaðnum standa. „Nú forum við á fullt að framleiða fyrir næsta sumar,“ segir Guðný, sen hvetur alla til þess að fá sér bíltúr á Stöðvarfjörð á laugardaginn og kippa einhverju með í jólapakkana. Opið verður frá klukkan 10:00-19:00. 10% afsláttur verður af öllu handverki og boðið verður upp á kaffi og vöfflur gestum að kostnaðarlausu. 


Rosalega flott fjáröflun fyrir foreldrafélagið
„Þetta er orðið rosa notó og flott. Við verðum að gera og græja í næstu viku og munum taka á móti hlutum miðvikudaginn 26. september. Við verðum svo með opið á laugardögum í vetur og fyrsti opnunardagur verður 6. október,“ segir Helga Rún Guðjónsdóttir, formaður foreldrafélags Djúpavogs, en félagið heldur úti nytjamarkaðnum Notó sem starfræktur verður í Vogshúsi í vetur.

Markaðurinn var settur á fót í fyrra haust og segir Helga Rún hann hafa gefist vel. „Þetta gekk miklu betur en við þorðum að vona og var rosalega flott fjáröflun fyrir foreldrafélagið. Við gátum gert helling fyrir krakkana og áttum meira að segja afgang til þess að byrja með núna í vetur,“ segir Helga Rún, en foreldrafélagið lagði einnig sitt af mörkum við söfnun á ærslabelg á Djúpavogi. „Kvenfélagskonur lögðu okkur lið og voru með kökubasar í Notó og aðilar úr sveitinni komu með kjötsúpu sem við seldum á Hammondhátíðinni, en innkoman rann öll í sjóðinn fyrir ærslabelginn.“

Helga Rún segist finna almenna vakningu á endurnýtingu. „Fólk er með fullar geymslur af dóti sem það vill ekki henda og Notó er kjörinn staður fyrir slíkt, en það sem er gamalt fyrir einum er nýtt fyrir öðrum. Þetta gerði líka svo mikið fyrir samfélagið, við fundum fyrir svo miklum velvilja og jákvæðni, en hreppurinn studdi einnig vel við bakið á okkur,“ segir Helga Rún, en foreldrafélagið tekur fagnandi á móti dóti miðvikudaginn 26. september.

Þó skal tekið fram að Notó tekur ekki við fatnaði, öryggisvörum á borð við hjálma og bílstóla, verðlausum eða ónýtum hlutum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.