Salt opið á ný tveimur dögum eftir brunann

Veitingastaðurinn Salt á Egilsstöðum, sem skemmdist í eldi á miðvikudagsmorgun, opnaði á ný í morgun tæpum tveimur sólarhringum eftir brunann. Framkvæmdastjórinn er þakklátur iðnaðarmönnum, starfsfólki og samfélaginu fyrir aðstoðina síðustu daga.


„Þetta gekk allt ótrúlega hratt fyrir sig, þökk sé viðbragðsflýti iðnaðarmanna og hve vel starfsfólkið tók í verkið,“ segir Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri 701 Hotels sem eiga staðinn.

Slökkvilið var kallað að staðnum rétt fyrir hálf tíu á miðvikudagsmorgun. Eldur blossaði upp þegar verið var að kveikja upp í kolagrilli staðarins og breiddist þaðan áfram út eftir loftræstistokk.

Mestar skemmdir urðu á loftræstikerfinu en einnig þurfti að gera við rafmagnskapla sem bráðnuðu í hitanum.

Iðnaðarmenn voru mættir til að taka út skemmdirnar um leið og gefið var leyfi til að fara inn á staðinn á ný. Um leið byrjaði starfsfólk að þrífa staðinn.

Nýtt loftræstikerfi kom í gær og búið var að setja það upp um kvöldmatarleytið. Í kjölfarið var lokið við að þrífa staðinn og opnað á venjulegum tíma klukkan tíu í morgun. „Þetta er venjulegur dagur. Réttur dagsins og allt í gangi og við tilbúin í helgina,“ segir Sigrún Jóhanna.

Tveir starfsmenn staðarins og slökkviliðsmaður brenndust lítillega í átökunum við eldinn. Þeir eru allir lausir við umbúðir eftir átökin og bera sig vel.

Sigrún sérstaklega þakklát iðnarmönnum fyrir snögg viðbrögð en hún segir forsvarsfólk staðarins einnig hafa fengið mikil viðbrögð úr samfélaginu.

„Fólki stóð alla veganna ekki á sama. Við fengum góða hvatningu bæði á samfélagsmiðlum og beint til okkar sem er ómetanlegt að fá.“

Sigrún Jóhanna ásamt Kristjáni bróður sínum sem er rekstrarstjóri staðarins í morgun. Mynd: GG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.