Sagði íbúafundinn hafa verið ætlaðan eftir að ákvörðun lægi fyrir

Rúnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Fjarðabyggð, sagði íbúafund um fyrirhugaða sölu á Rafveitu Reyðarfjarða hafa átt að fara fram eftir að ákvörðun lægi fyrir um söluna en ekki fyrir eins og aðrir bæjarfulltrúar héldu fram á íbúafundinum sem haldinn var í gærkvöldi. Íbúar tortryggðu leynd sem ríkt hafði yfir viðskiptunum.

„Hvers vegna var farið svona leynt með þetta söluferli? Menn ætluðu að ganga frá sölunni á síðasta bæjarstjórnarfundi en það breyttist eftir að umræða fór í gang á Facebook,“ sagði Agnar Bóasson, íbúi á Reyðarfirði á fundinum í gærkvöldi.

„Það átti ekki að hafa þennan borgarafund. Það átti að gera eitthvað snöggt. Þið eruð búin að ákveða að selja. Þið eruð ekki búin að sannfæra mig,“ sagði Gunnar Hjaltason.

Gunnar og Agnar voru meðal þeirra Reyðfirðinga sem tóku til máls á fundinum í gær og spurðu út í söluferli Rafveitu Reyðarfjarðar. Eins og fram hefur komið í fréttum stendur til að selja dreifikerfi hennar til Rarik á 440 milljónir króna en sölukerfi og rafstöðina í Búðará til Orkusölunnar fyrir 130 milljónir. Ákvörðunar um söluna er að vænta á bæjarstjórnarfundi sem hefst klukkan 17 í dag.

Á fundinum í gær lýstu embættismenn og fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn þeirri skoðun sinni að rekstrargrundvöllur Rafveitunnar væri brostinn eftir að Landsvirkjun sagði í haust upp samningi um áætlanagerð um orkukaup og miðlun fyrir Rafveituna, en veitan kaupir á markaði 95% þeirrar orku sem hún selur síðan til neytenda í þéttbýlinu á Reyðarfirði.

Samkvæmt fundargerðum Fjarðabyggðar voru málefni Rafveitunnar rædd sem trúnaðarmál á fundi bæjarráðs þann 25. nóvember síðastliðinn. Bæjarráð tók málið aftur fyrir þann 9. desember þar sem því var vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu. Bæjarstjórn fundaði síðasta fimmtudag og samþykkti að boða til íbúafundar í gærkvöldi og bæjarstjórnarfundar síðar í dag.

Rafveitan var reist árið 1930 með sameiginlegu átaki Reyðfirðinga og hefur verið í eigu sveitarfélags þeirra síðar. Núverandi íbúar sökuðu bæjarfulltrúa um að reyna að leyna því að til stæði að kynna þeim ákvörðun um söluna áður en hún lægi fyrir.

Hvenær átti að funda með íbúum?

Því höfnuðu flestir bæjarfulltrúarnir sem sátu á fundinum. „Þennan fund átti að halda. Það hefur alltaf legið fyrir að þetta yrði kynnt íbúunum,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar. Hann sagði trúnað hafa ríkt um umræðurnar eins og aðra viðkvæma samningagerð.

„Þegar á borð er borið trúnaðarmál ber að halda trúnað, hvort sem maður er í minni- eða meirihluta. Við virðum hann meðan hann er í gangi. Um þetta mál var trúnaður meðan umræðan var inni í bæjarráði, þegar málið kom fyrir bæjarstjórn var trúnaði aflétt,“ sagði Dýrunn Pála Skaftadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórninni.

Hún studdi ennfremur orð Jóns Björns um íbúafundinn. „Það var rætt í bæjarráði þar sem ég sat að þessi fundur yrði haldinn. Það var rætt um að halda hann á laugardegi eða mánudegi og mánudagur varð fyrir valinu þar sem við vildum ekki trufla helgarnar hjá fólki.“

Rúnar hafði hins vegar aðra sögu að segja um fundinn. „Fundurinn átti að vera. Það átti að samþykkja söluna og svo halda fundinn. Þannig var það. Fundurinn átti að vera en samþykktinni var slegið á frest.“

Rúnar sagði að fjallað hefði verið um málið í trúnaði. Á „skyndifundi“ sem haldinn hefði verið hefði hann spurt hvers vegna málið yrði ekki kynnt og fengið þau svör að vegna samkeppnismála væri ekki hægt að kynna málið áður en ákvörðunin yrði haldin. „Ég er ekki klár á hvers vegna því var breytt.“

Austurfrétt hefur fengið að sjá gögn sem staðfesta að ákveðið var að halda fundinn eftir að bæjarráðsfundinum lauk mánudaginn 9. desember. Bæjarfulltrúar meirihlutans héldu því fram í gær að ekki hefði verið ætlunin að taka ákvörðun án þess að kynna málið fyrst íbúum. Einar Már Sigurðarson, Fjarðalistanum, sagði að hvað sem á undan hefði gengið væru menn þá á réttri leið nú og nær væri að fagna því ef kúrsinn væri leiðréttur. Eydís ítrekaði að enginn annar en bæjarstjórn gæti tekið ákvörðun um söluna, aldrei hefði staðið til að gera það á bæjarráðsfundi.

Ekkert um söluna í meirihlutasamningi

Íbúar gagnrýndu einnig að ekkert hefði verið minnst á fyrirhugaða sölu Rafveitunnar í málefnasamningi meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks, né heldur uppbyggingu íþróttahúss á Reyðarfjörð sem nefnd hefur verið sem möguleg nýting á söluandvirðinu.

Einar Már, Eydís og Einar Már viðurkenndu öll að ekkert hefði verið minnst á íþróttahúsið né sölu Rafveitunnar í málefnasamningnum. Í fyrsta lagi hefðu engar nýbyggingar verið nefndar í meirihlutasamkomulaginu því það hefði verið varfærið. Hins vegar væru nú uppi breyttar forsendur, einkum vegna uppsögn Landsvirkjunar á samningi Rafveitunnar.

Í lokaorðum sínum varaði Rúnar þó við of miklu vantrausti í garð kjörinna fulltrúa og embættismanna. „Fyrir tveimur árum var ég bara venjulegur Fjarðabyggðarbúi. Eftir að ég fór í pólitík var ég fljótt orðinn var við að ég væri vitleysingur og heimskingi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.