„Sá valkostur sem hér er valinn er augljóslega sá besti“

Formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir þörf á breiðri samstöðu til að tryggja að ráðist verði í þau jarðgöng sem starfshópur um jarðgöng til Seyðisfjarðar leggur til. Þau muni hafa lykiláhrif á framtíð Austurlands.

„Þetta er vandað plagg þar sem farið er yfir það sem skiptir máli, bæði einangrun Seyðisfjarðar og samfélagsáhrif á Austurland allt.

Sá valkostur sem hér er valinn er augljóslega sá besti, hvernig sem á það er litið,“ segir Einar Már Sigurðsson, formaður SSA um skýrslu starfshópsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti skýrsluna á fundi með austfirsku sveitarstjórnarfólki í morgun en forveri hans í starfi kom hópnum á laggirnar haustið 2017. Niðurstaða hópsins er að ráðast skuli í gerð jarðganga frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar undir Fjarðarheiði og þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð. Fjarðarheiðargöngin yrðu fyrst.

Ekki ástæða til annars en bjartsýni

Í skýrslunni kemur fram að sjö ár taki að gera Fjarðarheiðargöng auk þess sem tvö ár þurfi til undirbúnings. Einar Már telur næsta verk að tryggja að ákvörðun um göngin verði tekin sem fyrst.

„Það er eðlilegt að áfangaskipta svo stóru verkefni. Framundan er að klára útfærslu verksins og tryggja því fjármagn og jákvætt viðhorf. Það er stórt og við þurfum mjög breiða samstöðu um það.

Ég geri mér vonir um að þegar við sjáum samgönguáætlun á haustdögum verði þar gert ráð fyrir að undirbúningur hefjist strax á næsta ári. Miðað við það er ég bjartsýnn á að verkið taki níu ár, frá og með næstu áramótum. Og ég hef ekki ástæðu til annars en vera bjartsýnn.“

Lykilatriði fyrir framtíð Austurlands

Einar Már á von á að skýrslan muni eiga sinn þátt í að tryggja jákvætt viðhorf gagnvart framkvæmdinni. „Ég held að skýrslan hafi þau áhrif að fólk átti sig á hversu mikilvæg göngin eru. Skýrslan tekur til greina ýmsar breytur aðrar en kílómetra og vetrarsamgöngur, eins og áhrif á hið austfirska samfélag. Framkvæmdin er lykilatriði ef við ætlum að tryggja bjarta framtíð þess.“

Áætlað er að seinni áfanginn taki, með undirbúningsrannsóknum, sex ár til viðbótar. Einar Már er vongóður um að verkið allt verði í jarðgangaáætlun sem gerð verður samhliða samgönguáætlun á haustþingi.

„Ráðherra hefur boðað sérstaka jarðgangaáætlun og ég hef trú á að göngin verði inni í þeirri 15 ára áætlun. Ég heyrði ekki annað en það væri stefna ráðherra, þótt eðlilega gæti hann ekki sagt það skýrt og skorinort hér í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.