Rúmar 27 milljónir veittar í styrkúthlutun Fjarðaáls

Formleg úthlutun samfélagsstyrkja Alcoa Fjarðaáls fór fram Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði síðastliðinn mánudag en samtals var úthlutað styrkjum sem nema 27,5 milljónum króna.


Um er að ræða styrki úr Styrktarsjóði Fjarðaáls fyrir samtals 18 milljónir, styrki úr íþróttasjóðnum Spretti fyrir 2,5 milljónir og einnig var formlega afhentur styrkur frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) sem nam 7 milljónum króna eða 60 þúsundum dollara.

 

Ár ærslabelgjastyrkja
Verkefnin sem hlutu styrki úr Styrktarsjóðsi Alcoa Fjarðaáls í ár voru afar fjölbreytt. „Þó má segja að þetta hafi verið ár „ærslabelgjastyrkja“ en samtals voru veittir sex styrkir til að setja upp svokallaða ærslabelgi vítt og breitt um Austurland. Þá voru veittir styrkir til margvíslegra menningar-, forvarnar- og tómstundarverkefna auk þess sem fjórar björgunarsveitir hlutu styrk. Hæstu einstöku styrkirnir þetta árið, ein milljón hvor, fóru til Ungs Austurlands annars vegar til að halda atvinnu- og menntasýningu á Austurlandi og hins vegar til nýstofnaðrar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands. Hluti sveitarinnar kom saman í tilefni af úthlutuninni og flutti jólalagið um Rúdólf með rauða nefið. Nýafstaðnir tónleikar sinfóníuhljómsveitarinnar þann 1. desember hlutu mikið lof og verður skemmtilegt að fylgjast með næstu verkefnum hennar,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.

Sprettur er íþróttasjóður sem Alcoa Fjarðaál leggur til fjármagn en ÚÍA sér um utanumhald hans. Úr Spretti voru samtals veittar 2,5 milljónir en þær runnu til ungs íþróttaafreksfólks á Austurlandi og til þjálfara og íþróttafélaga.

Lungaskólinn hlaut styrk frá Alcoa Foundation
Þá var einnig veittur einn styrkur úr Samfélagssjóði Alcoa, Alcoa Foundation. „Sá styrkur rann að þessu sinni til Lungaskólans á Seyðisfirði og hlaut skólinn samtals 60 þúsund dollara sem samsvarar um 7 milljónum króna til að efla skólann og stuðla að uppbyggingu varanlegs skólahúsnæðis á Seyðisfirði. Skólinn fékk að gjöf gömlu netaverksmiðjuna frá Síldarvinnslunni og þar hafa staðið yfir miklar breytingar þannig að framlag Samfélagssjóðs Alcoa var kærkomið í þá vinnu. Lasse Høgenhof, skólastjóri Lunga skólans, veitti styrknum viðtöku og sagði frá vinnunni við uppbyggingu skólans en þar stunda um 40 nemendur nám á hverju skólaári við listir og skapandi greinar,“ segir Dagmar Ýr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.