Ríflega 160 Austfirðingar fastir í ítölsku Ölpunum

Austfirðingar eru um helmingur þeirra 300 Íslendinga bíða eftir að komast heim frá ítalska skíðaþorpinu Livigno. Mikil snjókoma hefur sett allar ferðaáætlanir úr skorðum en Austfirðingarnir áttu að fljúga heim í dag.

„Við áttum flug í Egilsstaði frá Zürich klukkan tólf á hádegi að íslenskum tíma. Við gerðum ráð fyrir átta tíma rútuferð þangað út af veðri,“ segir Guðný Margrét Bjarnadóttir, þjálfari hjá Skíðafélagi Fjarðabyggðar.

Undir venjulegum kringumstæðum tekur 4-5 tíma að fara milli Livigno og Zürich, sem er í 200 km fjarlægð til norðvesturs. Fjórar rútur voru pantaðar undir hópinn, tvær þeirra komust alla leið í nótt en hinar voru stoppaðar 80 km frá þorpinu vegna ófærðar.

Fínar aðstæður þar til í gær

Alls eru 164 Austfirðingar í ítalska þorpinu í æfingaferð á vegum Skíðafélagsins í Stafdal og Skíðafélags Fjarðabyggðar. Hópurinn hélt utan í beinu flugi föstudaginn þriðja janúar og hefur unað sér glaður í skíðabrekkunum.

„Aðstæður hafa verið góðar, ég held við höfum náð að skíða í 27 klukkutíma á æfingum. Veðrið hefur verið fínt og ekkert brjálæðislegur snjór, fyrsti púðurdagurinn var í gær. Síðasta sólarhring hefur hins vegar snjóað rosalega,“ segir Guðný Margrét.

Mikið fannfergi hefur verið í Ölpunum síðustu daga, einkum Þýskalandi og Austurríki. Sú snjókoma virðist nú líka hafa breiðst til suðurhluta fjallgarðsins.

Vel hugsað um hópinn

Livigno er 6000 manna bær nyrst á Ítalíu, rétt við svissnesku landamærin, ekki fjarri St. Moritz sem hýsir eitt þekktasta skíðasvæði heims. Bærinn sjálfur er í um 1800 metra hæð en efsta skíðalyftan fer upp í 3000 metra hæð. Guðný segir að vel fari um hópinn meðan beðið er heimferðar. „Við erum á góðu hóteli og það er hugsað vel um okkur.“

Hún ber líka starfsfólki Ferðaskrifstofu Akureyrar vel söguna, en skrifstofan heldur utan um ferðina. „Þar er búið að vera vinna í okkar málum síðan klukkan tvö í nótt og starfsfólkið hefur staðið sig vel.“

Núverandi áætlun gerir ráð fyrir að hópurinn leggi af stað klukkan tvö að íslenskum tíma í suðurátt til Bergamo flugvallar sem þjónar Mílanó. Þangað er rúmlega 200 km leið og gert er ráð fyrir að rútuferðin taki 6-7 tíma. Þaðan flýgur svo þorri hópsins beint í Egilsstaði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar